Í fyrra skiptið var orðið antikristur skrifað neðst á fánann og rétt eftir að hann var lagfærður birtist „LEVITICUS 20:13“ á sama stað. Seinna krotið vísar í vers í þriðju Mósebók Biblíunnar sem leggur dauðarefsingu við samkynja kynlífi.
Bæði atvikin voru tilkynnt til lögreglu í gær, að sögn Guðrúnar Karls Helgudóttur, sóknarprests við Grafarvogskirkju. Fréttablaðið greindi fyrst frá. Starfsfólk kirkjunnar telur líklegt að sami einstaklingur hafi verið að verki í báðum tilvikum og býður honum að hitta þau og ræða málin.
Ljóst hvaða skilaboð eru þarna á ferð
Eftirlitsmyndavél hefur nú verið sett upp til að fylgjast betur með svæðinu fyrir framan kirkjuna. Guðrún segir að starfsfólki Grafarvogskirkju hafi brugðið þegar þau sáu fyrra skemmdarverkið og í seinna skiptið hafi verið ljóst að þarna voru ákveðin skilaboð á ferð.
„Þetta er augljóslega einhver sem nýtir sér biblíuvers til þess að næra sín sjónarmið og fordóma gagnvart hinsegin fólki. Kannski finnst þessari manneskju, og þeim ef þau eru fleiri, að kirkjan eigi ekki að styðja fjölbreytileikann eins og við erum að gera.“

Fáninn verði áfram á sínum stað
Guðrún bætir við að kirkjan sé nú enn staðfastari í því að regnboginn eigi að vera þarna áfram. „Við tökum bara meiri málningu og hann mun standa þarna.“
Skemmdarverkin hafa fengið mjög mikil viðbrögð en Guðrún segir að þau hafi ekki bara fundið fyrir stuðningi í umræðunni á samfélagsmiðlum.
„Jákvæðu viðbrögðin eru miklu miklu meiri en það er leiðinlegt að þetta virðist vera angi af því sem er að gerast núna. Núna styttist í hinsegin daga og það er hálfleiðinlegt að þetta skuli að vera að aukast núna, þessi áreitni og fordómar í garð hinsegin fólks,“ segir Guðrún.
„Þessi viðbrögð sýna samt einmitt hversu mikilvægt það er að fáninn sé þarna og við sýnum þessu stuðning.“