Fótbolti

Smitaðist og missir af undanúrslitaleik EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klara Bühl í leiknum á móti Austurríki í átta liða úrslitunum.
Klara Bühl í leiknum á móti Austurríki í átta liða úrslitunum. Getty/Harriet Lander

21 árs gömul þýsk landsliðskona fékk mjög leiðinlegar fréttir í gær þegar í ljós kom að hún má ekki taka þátt í undanúrslitaleik Evrópumóts kvenna í fótbolta í kvöld.

Þýskaland mætir þar Frakklandi og í boði er úrslitaleikur á móti Englandi á Wembley.

Klara Bühl er ekki meidd og ekki í banni. Ástæðan fyrir fjarveru hennar í kvöld er að hún fékk jákvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi. Þýska sambandið greindi frá þessu á samfélagsmiðlum sínum.

Bühl er liðsfélagi Glódísar Perlu Viggósdóttur, Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur og Cecilíu Rán Rúnarsdóttur hjá Bayern München.

Bühl er framherji sem skoraði fyrir þýska landsliðið í sigri á Spáni í riðlakeppninni en alls hefur hún skorað 13 mörk í 28 landsleikjum.

Klara fór mjög illa með algjört dauðafæri í sigrinum á Austurríki í átta liða úrslitunum en sem betur fer fyrir hana þó kom það ekki að sök.

Klara fór strax í einangrun en sýnir engin einkenni. Restin af þýska liðinu fór líka í próf en enginn annar hefur fengið jákvæða niðurstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×