Fótbolti

Vill ekki vera borinn saman við Guardiola og Cruyff

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Josep Guardiola og Xavi Hernandez á góðri stundu.
Josep Guardiola og Xavi Hernandez á góðri stundu. Getty/Marc Graupera Aloma

Xavi Hernández fetar nú í fótspor þeirra Pep Guardiola og Johan Cruyff hjá Barcelona. Allir voru þeir frábærir leikmenn hjá félaginu sem seinna urðu síðan þjálfarar. Þjálfari Barcelona vill þó engan samanburð.

„Þetta er ekki spurning um egó. Ég vil ekki verða borinn saman við Pep eða Johan eða einhvern annan,“ sagði Xavi.

„Þvert á móti. Ég er sá sem ég er í dag þökk sé þeim. Ég er lærlingur þeirra,“ sagði Xavi á blaðamannafundi fyrir æfingarleik á móti Juventus.

Xavi tók við þjálfun Barcelona þegar Ronald Koeman var rekinn í nóvember 2021.

Xavi hefur síðan verið borinn saman við þá Pep Guardiola, sem vann Meistaradeildina tvisvar og spænsku deildina þrisvar frá 2008 til 2012 og líka Johan Cruyff, sem er titlaður sem upphafsmaður Barcelona fótboltans og var einnig sá sem stofnaði La Masia akademíu félagsins.

„Ég vil ekki reyna að vinna Pep eða Johan. Það sem ég vill er að Barca vinni. Draumur minn er að koma Barca aftur á toppinn í heimsfótboltanum,“ sagði Xavi.

Xavi Hernández er 42 ára gamall. Pep Guardiola var 37 ára þegar hann tók við Barcelona og Johan Cruyff var 41 árs gamall þegar hann gerðist þjálfari Barcelona árið 1988.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×