Innlent

Vara við óþarfa ferðum um Krýsuvíkurbjarg í skjálftahrinum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Veðurstofan varar við óþarfa ferðum um bjargbrún Krýsuvíkurbjargs þegar jarðhræringar eru. Myndin er ekki af Krýsuvíkurbjargi.
Veðurstofan varar við óþarfa ferðum um bjargbrún Krýsuvíkurbjargs þegar jarðhræringar eru. Myndin er ekki af Krýsuvíkurbjargi. Vísir/Vilhelm

Stórar sprungur eru í Krýsuvíkurbjargi vegna stöðugrar hreyfingar sem bjargið er á. Sprungurnar hafa dýpkað talsvert undanfarin ár vegna jarðskjálftahrina. Fólk er varað við því að fara út á bjargbrúnina, sérstaklega þegar jarðskjálftahrinur ganga yfir.

„Það hafa verið sprungur þarna alveg lengi og sjórinn grefur undan. Þetta er bara eins og í sjávarhömrum, þá hrinur alltaf reglulega og koma sprungur í bergið. Þegar jarðskjálftahrinan var í undanfari Fagradalsgossins þá opnuðust sprungurnar mjög mikið og miklu innar, þær urðu mun greinilegri þær sem voru innar,“ sagði Esther Hlíðar Jensen landmótunarfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í Bítinu á Bylgjunni í morgun. 

Greint var frá því á RÚV um helgina að djúpar sprungur hafi myndast vestan við gamla vitann á bjarginu. Þá sé stór bergfylla að klofna frá bjarginu rétt fyrir neðan vitann. 

„Við fengum myndir 2020 og sáum núna að hún var búin að víkka síðan þá. Það er merki um að hún sé enn á hreyfingu. Það er alveg eðlilegt þó það séu engir jarðskjálftar, þá er sjórinn að grafa undan,“ segir Esther. 

Veðurstofan hafi engar upplýsingar um hve margir fari um Krísuvíkurbjarg. Því hafi henni þótt rétt að bæta í skiltin og aðvaranir vegna sprunganna. 

„Þær eru nokkuð djúpar en við erum ekki að mæla þetta, það eru ekki nein mæligögn. Við tökum bara það sem hafði verið að hreyfast, hversu stórt svæði það var lauslega, en við höfum ekki verið að mæla það neitt.“

Skipulagsbreytingar standi yfir á svæðinu, meðal annars á gönguleiðum, eftir að eldgosið í Fagradal hófst í fyrra.

„Það gæti hrunið þarna út í sjó og það gerði það 2020, þá hrundi stór spilda þarna niður og nokkrar. Við vorum með myndir, fyrir og eftir, þar sem sást að höfðu hrunið stór stykki. Þetta mun gerast áfram,“ segir Esther.

„Í rauninni getum við ekkert sagt hvenær það er en ef það er jarðskjálftahrina í gangi, sérstaklega með stórum skjálftum, þá eru meiri líkur á því. Það er eina sem við höfum í höndunum. Ef við vitum að er jarðskjálftahrina þá gefum við út viðvörun um að það sé hætta á hruni úr sjávarhömrum.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×