Innlent

For­varnar­hópurinn Bleiki fíllinn kveður

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hópurinn Bleiki fíllinn ætlar að hætta störfum í núverandi mynd.
Hópurinn Bleiki fíllinn ætlar að hætta störfum í núverandi mynd. Bleiki fíllinn

Forvarnarhópurinn Bleiki fíllinn sem hefur verið áberandi í Vestmannaeyjum í kringum Verslunarmannahelgina ætlar að hætta störfum, að minnsta kosti í núverandi mynd.

Í færslu á Facebook-síðu hópsins segir að á þeim tíu árum sem hópurinn starfaði hafi landslagið í kringum kynferðisofbeldi gjörbreyst.

„Orðræðan var allt önnur og viðhorf til kynferðisofbeldis voru oftast nær einföld; þagga niður þetta óþægilega mein samfélags okkar. Slagorð okkar voru því skýr: Það er bleikur fíll í stofunni, vandamál sem allir vita af en enginn vill ræða. Því þarf að breyta,“ segir í færslunni.

Síðan hópurinn hóf störf hafa verið tvær MeToo-byltingar og segir hópurinn mikið hafa áunnist. Þó sé enn langt í land.

„Við í hópnum erum þó orðin lúin og teljum að nú séu kaflaskil í starfi okkar. Hver sem framtíðin verður viljum við nota tækifærið nú og þakka fyrir ómetanlegan stuðning gegnum árin,“ segir í færslunni.

Hópurinn endar færslu sína á skilaboðum til Eyjamanna og þeirra sem heimsækja eyjuna um Verslunarmannahelgina til að fagna Þjóðhátíð.

„Þegar þið berið merki hópsins eruð þið að stuðla að vitundarvakningu og umræðu. Ekki hætta því. Þannig eruð þið hluti af lausninni en ekki vandanum. Þið viljið ekki bleika fíla í ykkar liði, þið viljið að fólk ræði um mikilvægi samþykkis, þið styðjið þolendur, þið viljið ekki stinga hausnum í sandinn, þið viljið stuðla að breytingum. Takk og aftur takk.“

Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fer fram í fyrsta skiptið síðan árið 2019 um næstu helgi. Hátíðinni hefur verið frestað síðustu tvö ár vegna heimsfaraldurs Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×