Innlent

Fær greidd bið­laun frá Hvera­gerðis­bæ þrátt fyrir stöðu hjá Hruna­manna­hreppi

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Aldís Hafsteinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Hveragerði og núverandi sveitarstjóri í Hrunamannahreppi.
Aldís Hafsteinsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Hveragerði og núverandi sveitarstjóri í Hrunamannahreppi. Vísir

Fyrrverandi bæjarstjóri Hveragerðis, Aldís Hafsteinsdóttir fékk greidda sex mánuði í biðlaun ásamt aksturstyrk og launatengdum gjöldum frá bæjarfélaginu þegar hún lét af störfum. Heildarupphæð launa og gjalda sem um ræðir eru rúmar tuttugu milljónir. Nýr bæjarstjóri mun ekki njóta sömu fríðinda.

Aldís hefur verið ráðin til starfa sem nýr sveitarstjóri í Hrunamannahreppi en samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins eru útborguð biðlaun Aldísar frá Hveragerði tæpar níu milljónir króna.

Í fundargerð bæjarráðs Hveragerðisbæjar frá því í gær má sjá bókun frá fulltrúum meirihlutans þar sem kemur fram að ráðningarsamningur Geirs Sveinssonar, nýs bæjarstjóra muni ekki innihalda nákvæmlega sömu fríðindi hvað varðar biðlaun.

„Í ráðningarsamningi við fyrrum bæjarstjóra voru akstursgreiðslur hluti af biðlaunum. Ekki var í ráðningarsamningi ákvæði um að biðlaun myndu falla niður ef viðkomandi fengi annað starf og var því fyrrum bæjarstjóra greidd sex mánaða biðlaun með launatengdum gjöldum að upphæð 20.058.749 sem við teljum óeðlilegt og er því þessu ákvæði breytt við gerð þessara samnings,“ segir í bókuninni.

Nýtt samningsákvæði í ráðningarsamningi við Geir gerir því ráð fyrir því að biðlaun falli niður hljóti fráfarandi bæjarstjóri ráðningu annars staðar. Þó falli biðlaunin ekki niður að fullu séu laun í nýju starfi lægri en biðlaun bæjarstjóra „heldur skerðast sem nemur launagreiðslum í nýju starfi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×