Innlent

Þór­dís Sif Sigurðar­dóttir nýr bæjar­stjóri Vestur­byggðar

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Þórdís Sif Sigurðardóttir, sem var áður bæjarstjóri Borgarbyggðar, hefur verið ráðin nýr bæjarstjóri Vesturbyggðar.
Þórdís Sif Sigurðardóttir, sem var áður bæjarstjóri Borgarbyggðar, hefur verið ráðin nýr bæjarstjóri Vesturbyggðar. Gústi

Tillaga um ráðn­ingu Þórdísar Sifjar Sigurð­ar­dóttur sem bæjar­stjóra Vest­ur­byggðar verður lögð fram á næsta fundi bæjar­ráðs Vest­ur­byggðar. Ráðningin tekur formlega gildi þegar hún hefur verið staðfest á fundinum.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Vesturbyggðar

Þórdís Sif var sveitarstjóri Borgarbyggðar frá 2020 til 2022 undir meirihluta Sjálfstæðisflokks, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Í nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum fékk Framsókn fimm meðlimi kjörna í sveitarstjórn Borgarbyggðar og felldi meirihlutann. Eftir kosningarnar greindi hún frá því að nýr meirihluti hefði ákveðið að endurráða hana ekki.

Þar áður var Þórdís Sif bæjarritari og staðgengill bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar á árunum 2013 til 2020. Auk þess hefur hún setið í ýmsum stjórnum og starfshópum, þar á meðal í starfshóp um aðgerðir á Flateyri í kjölfar snjóflóðs, í stjórn Brákar húsnæðissjálfseignarstofnunar, Gleipnis nýsköpunar- og þróunarmiðstöðvar, Blábankans á Þingeyri og Lýðskólans á Flateyri. 

Þórdís er með meistarapróf í lögfræði frá Háskóla Reykjavíkur og B.sc. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst.

Að sögn Þórdísar er hún virkilega spennt „að flytja vestur, kynnast nýju fólki og verða hluti af nýju samfélagi“ enda hafi hún „miklar taugar til Vestfjarða.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×