Erlent

Pítsa­sendill bjargaði fimm börnum úr elds­voða

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skjáskot úr búkmyndavél viðbragðsaðila í Lafayette.
Skjáskot úr búkmyndavél viðbragðsaðila í Lafayette. Lögreglan í Lafayette

Pítsasendillinn Nicholas Bostic bjargaði í vikunni fimm börnum úr eldsvoða í bænum Lafayette í Indiana-ríki. Hann var inni í brennandi húsinu í fimmtán mínútur.

Bostic var að keyra framhjá húsi Barrett-fjölskyldunnar þegar hann sá að eld og reyk koma úr húsinu. Hann stöðvaði bílinn og hljóp í átt að húsinu. Hann komst inn í gegnum ólæsta bakhurð og öskraði að fólk ætti að koma sér út. Sjálfur sá hann lítið sem ekki neitt vegna reyksins en náði að koma auga á eitt barnanna í stiga hússins.

Seionna Barrett var þar ásamt tveimur yngri systkinum sínum og vinkonu systur hennar. Bostic kom þeim öllum út en Barrett sagði honum þá að sex ára systir hennar væri enn inni.

Hann dreif sig inn og fann hana en hún var þá stödd á neðri hæð hússins. Þegar Bostic fann hana loksins var neðri hæðin orðin full af reyk og gat hann ekki séð neina hurð eða glugga. Hann fór því upp á efri hæðina, braut glugga og hoppaði út með barnið í fanginu.

Bostic fékk fyrsta stigs bruna en börnin sluppu öll ómeidd, en í áfalli.

„Við erum þakklát fyrir það sem Nick gerði. hann er alvöru hetja,“ sagði faðir barnanna í samtali við Washington Post. „Ég vil ekki hugsa um hvað gæti hafa gerst ef Nick hefði ekki komið.“

Bostic ásamt kærustu sinni (t.v.), börnunum og föður barnanna.Facebook/Nick Bostic


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×