Frakkland vann stórsigur á Ítalíu í fyrstu umferð en átti svo erfitt uppdráttar gegn Belgíu. Sigur vannst þó á endanum og Frakkland komið í 8-liða úrslit og búið að tryggja sér sigur í riðlinum. Það má því vonast eftir örlitlu kæruleysi og svo að leikmennirnir sem komi inn í dag séu ekki nægilega vel með á nótunum.
Lið Frakka í dag er þannig skipað að hin margreynda Pauline Camille Peyraud-Magnin (Juventus) er í markinu.
Vörnina skipa þær Wendie Renard (Lyon), Marion Torrent (Montpellier), Aïssatou Tounkara (Atl. Madríd) og Selma Bacha (Lyon).
Á miðjunni eru Sandie Toletti (Levante), Charlotte Bilbault (Bordeaux) og Clara Mateo (París FC.
Fremstu þrjár eru Kadidiatou Diani (París Saint-Germain), Melvine Malard (Lyon) og Sandy Baltimore (PSG).
Leikur Íslands og Frakklands í D-riðli EM kvenna í fótbolta hefst klukkan 19.00. Hann er í beinni textalýsingu á Vísi.
Ísland þarf sigur til að tryggja sæti sitt í 8-liða úrslitum en fari svo að leik Ítalíu og Belgíu ljúki með markalausu jafntefli þá fer Ísland áfram sama hvað.