Fótbolti

Lewandowski mættur til Miami að hitta nýju liðsfélagana sína

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Robert Lewandowski er mættur í herbúðir Barcelona.
Robert Lewandowski er mættur í herbúðir Barcelona. Twitter/@FCBarcelona

Pólska markamaskínan Robert Lewandowski er mættur til Miami þar sem hann hitti nýju liðsfélaga sína í Barcelona. Framherjinn er sagður skrifa undir þriggja ára samning við spænska stórveldið.

Börsungar greiða Bayern München 42,5 milljónir punda fyrir Lewandowski, en það samsvarar rétt tæplega sjö milljörðum króna. Lewandowski átti eitt ár eftir af samningi sínum við Bayern, en hafði sagt þýsku meisturunum að hann myndi ekki skrifa undir nýjan samning.

Eins og áður segir er framherjinn sagður skrifa undir þriggja ára samning við Barcelona með möguleika á eins árs framlengingu.

Enn hefur ekki borist opinber tilkynning um að Lewandowski sé orðinn leikmaður Barcelona, en félagið birti þó myndir og myndbönd á Twitter-síðu sinni í morgun þar sem sjá má leikmanninn í fatnaði merktum liðinu að hitta leikmenn liðsins.

„Ég er loksins mættur og er virkilega ánægður að vera að ganga til liðs við Barcelona,“ sagði Lewandowski í einu myndbandinu.

„Seinustu dagar hafa verið langir, en nú er samningurinn klár og ég get farið að einbeita mér að nýjum kafla og nýrri áskorun í mínu lífi.“

„Ég er enn náunginn sem vill vinna, ekki bara leiki, heldur titla líka. Þannig að ég vona að við byrjum að vinna og að við munum berjast um titla allt tímabilið.“

„Ég hef alltaf viljað spila í La Liga. Ég hef alltaf viljað spila fyrir stærstu klúbbana. Þetta er næsta skref,“ sagði Lewandowski kátur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×