Fótbolti

Dembélé heldur kyrru fyrir í Barcelona

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ousmane Dembélé verður áfram í herbúðum Barcelona.
Ousmane Dembélé verður áfram í herbúðum Barcelona. Steve Christo - Corbis/Corbis via Getty Images

Franski knattspyrnumaðurinn Ousmane Dembélé hefur skrifað undir nýjan samning við spænska stórveldið Barcelona.

Framtíð leikmannsins hefur verið í lausu lofti seinustu vikur, en samningur hans við félagið var við það að renna út. Dembélé var meðal annars orðaður við enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea.

Hann hefur nú skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Barcelona og mun hann því halda kyrru fyrir í Katalóníu til ársins 2024.

Dembélé gekk í raðir Barcelona frá Dortmund árið 2017, þá aðeins tvítugur að aldri. Miklar vonir voru bundnar við leikmanninn og hann lagði upp mark í sínum fyrsta leik fyrir félagið í 5-0 sigri gegn Espanyol.

Þrátt fyrir góða byrjun hjá félaginu hefur þessi 25 ára kantmaður ekki náð að standa undir þeim væntingum sem gerðar voru til hans. Mikil og mörg meiðsli hafa sett strik í reikninginn og á þessum fimm árum í röðum Börsunga hefur leikmaðurinn aðeins leikið 150 leiki fyrir félagið. 

Í þessum 150 leikjum hefur Dembélé skorað 32 mörk og lagt upp önnur 34 fyrir liðsfélaga sína. Hann skilaði 13 stoðsendingum í spænsku úrvalsdeildinni á seinasta tímabili, fleiri en nokkur annar leikmaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×