
Frambjóðendur þurftu að fá að lágmarki 30 atkvæði til að geta haldið áfram baráttunni um leiðtogasætið og þar með forsætisráðherraembættið. Í næstu umferðum dettur sá út sem fær fæst atkvæði. Sunak hlaut 88 atkvæði þingmanna flokksins í dag og Penny Mordaunt 67 atkvæði. Þar á eftir komu Liz Truss með 50, Kemi Badenoch með 40, Tom Tugendhat með 37 og Suella Braverman með 32. Nadim Zahawi og Jeremy Hunt féllu úr leik.
Róstursamt var í fyrirspurnartíma á breska þinginu í dag. Tveir þingmenn skorska aðskilnaðarflokksins Alba vildu komast að til að mótmæla einum af síðustu embættisverkum Borisar Johnsons sem var að hafna beiðni stjórnvalda í Skotlandi um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skota frá Bretlandi.
Forsætisráðherrann komst ekki að fyrir framíköllum og var Sir Lindsay Hoyle forseti þingsins langt í frá ánægður með framgöngu skorsku þingmannanna.

„Hr. forseti... á morgun,“ reyndi Johnson að byrja þar til forsetinn hrópaði: „Haldið kjafti í smá stund.“
Ef þingmenn verða ekki við tilmælum forseta á breska þinginu getur hann byrjað á viðvörun með því að nefna þá á nafn. Að lokum getur hann vísað þeim af þingfundi og sett þá í fundarbann í fimm daga en breska þingið fer í sumarfrí á föstudag í næstu viku.
„Þögn í salnum! Ég segi við virðulegan herramann að ég læt slíka hegðun ekki viðgangast,“ hrópaði þingforsetinn þegar óróinn hélt áfram.
Þingmennirnir létu hins vegar ekki segjast og voru þá ekki teknir neinum vettlingatökum.

„Neale Hanvey, ég nefni þig og Kenny MacAskill og skipa ykkur að yfirgefa þingsalinn. Þingverðir takið á þeim, takið á þeim. Út með ykkur. Þingverið fylgið þeim út. Fjarlægið þá, farið með þá út,“ skipaði þingforsetinn.
Að endingu komst Johnson loksins að.
„Það má með sanni segja að ég fer ekki á þeirri stundu sem ég hefði kosið. Sannarlega. En ég er hreykinn af góðu samstarfi okkar í málefnavinnu okkar bæði innanlands og utan. Hr. forseti. Ég er einnig hreykinn af leiðtogastarfi mínu,“ sagði Boris Johnson.