Innlent

Öryggisvistun vegna alvarlegra líkamsárása á fangaverði og samfanga

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Líkamsárásirnar áttu sér stað í fangelsinu á Hólmsheiði.
Líkamsárásirnar áttu sér stað í fangelsinu á Hólmsheiði. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á þrítugsaldri hefur verið gert að sæta áframhaldandi öryggisvistun vegna tveggja alvarlegra líkamsárása sem áttu sér stað í fangelsinu á Hólmsheiði í janúar síðastliðnum. 

Landsréttur staðfesti í dag úrskurð héraðsdóms þar sem manninum er gert að sæta áframhaldandi vistun á viðeigandi stofnun til föstudagsins 5. ágúst. Er maðurinn undir rökstuddum grun um að hafa ráðist á samfanga á Hólmsheiði, en samkvæmt málsgögnum komu fangaverðir að samfanganum bóðugum á gólfi fangaklefans og var blóð á gólfi og veggjum. Hlaut hann opið sár á vör og munnholi, sprungu á tönn og heilahristing. 

Í skýrslutökum lýsti brotaþoli því að maðurinn hafi komið inn í klefann þar sem hann lá í rúmi sínu, kýlt hann þremur höggum í andlit og yfirgefið svo klefann þegar fangeverðir kölluðu á hann.

Alvarlegar líkamsárásir á tvo fangaverði

Samkvæmt málsgögnum réðist maðurinn einnig á tvo fangaverði inni í klefa.

„Annar fangavörður var fyrir utan klefann og fór inn í klefann er hann heyrði læti þaðan, sá hann hvar kærði lét höggin dynja á fangaverðinum sem lá meðvitundarlaus og blóðugur á gólfinu,“ segir í dómnum 

Fangavörðurinn reyndi að stöðva kærða sem réðist þá gegn honum og veitti honum ítrekuð högg.

Meðal áverka sem annar fangavarðanna hlaut er brot á andlitsbeinum, nefbeinabrot, tognun á öxl, mar á höfði, í munni og á brjóstkassa. Hlaut hinn fangavörðurinn bólgu á enni, skurð og mar á augabrún, sár á höfði og bólgu á vör

Maðurinn hefur alfarið neitað að tjá sig í yfirheyrslum hjá lögreglu en meðal málsgagna eru myndbönd úr öryggismyndavélum fangelsisins.

Í dómnum kemur einnig fram að maðurinn hafi frá árinu 2017 hlotið sjö refsidóma og verið dæmdur samtals í 57 mánaða fangelsi fyrir margvísleg auðgunar-, umferðar-, fíkniefna-og vopnalagabrot auk skjalabrots, húsbrots, rangra sakargifta, eignaspjalla, nytjastuldar og ráns.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×