Fótbolti

„Hún hefur örugglega elskað þessa athygli“

Atli Arason skrifar
Berglind og Sólveig féllust í faðma eftir leikslok í gær.
Berglind og Sólveig féllust í faðma eftir leikslok í gær. Vilhelm

Sólveig Anna Gunnarsdóttir, móðir Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur, fagnaði sextugs afmæli sínu í gær á sama tíma og Ísland og Belgía mættust í fyrsta leik liðanna á EM í Englandi.

Stuðningsmannahópur Íslands söng afmælissönginn fyrir Sólveigu á stuðningsmannasvæðinu í Manchester fyrir leik. Það fór ekki framhjá Berglindi.

„Já ég var búinn að sjá einhver myndbönd af því, alveg geggjað. Hún hefur örugglega elskað þessa athygli,“ sagði Berglind og hló.

Sólveig gat varla fengið betri afmælisgjöf þegar hún fylgdist með dóttur sinni skora snemma í síðari hálfleik, fyrsta mark Íslands á Evrópumótinu þetta árið.

„Ég hélt að hjartað ætlaði að springa og svo komu tárin og allt saman. Þetta var geggjað,“ sagði Sólveig þegar hún var spurð út í tilfinningar sínar er hún sá boltann í netinu.

Berglind sagði sjálf að mamma hennar hafi sett smá pressu á hana að skora mark á afmælisdeginum hennar.

„Hún setti pínu pressu og hún fékk það [markið]. Ég hefði viljað gefa henni sigur en það gerist bara í næsta leik,“ sagði Berglind.

Ísland fékk vítaspyrnu eftir hálftíma leik sem Berglind tók. Sólveig vorkenndi dóttur sinni sem var vissulega undir gífurlegri pressu á punktinum og sagðist ekki geta ekki horft á spyrnuna sem Berglind klikkaði á. Berglind hefur ekki klikkað á mörgum vítaspyrnum til þessa.

„Ég ætlaði að skora. Ég er búinn að vera að æfa vítaspyrnur alla vikuna og ég man ekki einu sinni eftir því að hafa klúðrað vítaspyrnu áður þannig þetta var alveg týpískt en þetta gerist og það er bara áfram gakk,“ svaraði Berglind, aðspurð að því hvað fór í gegnum hausinn á henni þegar hún tók spyrnuna.

Viðtölin við Berglindi og Sólveigu sem og innslag Svövu Kristínar frá gærdeginum má sjá í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Hún hefur örugglega elska þessa athygli



Fleiri fréttir

Sjá meira


×