Fótbolti

Mætti sem á­horf­andi á EM en breyttist í skyndi í leik­mann ís­lenska lands­liðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving á æfingu íslenska liðsins í dag ásamt Telmu Ívarsdóttur.
Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving á æfingu íslenska liðsins í dag ásamt Telmu Ívarsdóttur. Vísir/Vilhelm

Það kemur alltaf leikmaður í stað þeirra sem detta út. Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving fékk því tækifærið þegar Cecilía Rán Rúnarsdóttir puttabrotnaði á æfingu fyrir helgi. Evrópumótið var því búið hjá Cecilíu áður en það byrjaði.

Fyrsta Evrópumót markvarðarins Auðar byrjaði eins óvænt og mögulegt er. Hún fékk ekki bara óvæntar fréttir sjálf heldur kom hún síðan starfsliði KSÍ á óvænt með því birtast strax á liðshótelinu.

Auður var nefnilega kominn út til Manchester til að fylgjast með leikjum íslenska liðsins en það var skiljanlega enginn fótboltabúningur með í för.

Þegar kallið kom þá var Auður fljót að mæta á hótel íslenska liðsins en það þurfti aftur á móti að redda fyrir hana öllum búnaði eins og takkaskóm og markamannshönskum. Það tókst og íslenska liðið var því strax komið með þriðja markmanna á fyrstu æfingunni eftir að Cecilía datt út.

Auður er einu ári eldri en Cecilía. Hún er nú næstyngsti leikmaður hópsins alveg eins og Cecilía Rán var.

Auður, sem er fædd árið 2002, er uppalin í Val en hafði leikið með ÍBV undanfarin tvö ár. Hún er hins vegar með Aftureldingu í Bestu deildinni í sumar.

Auður var í hópnum í gær í jafnteflisleiknum á móti Belgíu.  Sandra Sigurðardóttir stóð í markinu og Telma Ívarsdóttir var líka varamarkvörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×