Fótbolti

Berglind hélt uppi hefð Eyjakvenna á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku stelpunar fagna hér Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur eftir að hún kom íslenska liðinu yfir í gær.
Íslensku stelpunar fagna hér Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur eftir að hún kom íslenska liðinu yfir í gær. Vísir/Vilhelm

Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði fyrsta mark Íslands á Evrópumótinu í Englandi þegar hún kom Íslandi yfir í jafnteflinu á móti Belgíu í Manchester í gær.

Berglind Björg er úr Vestmannaeyjum alveg eins og þær Fanndís Friðriksdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir sem skoruðu fyrstu mörk íslenska liðsins á Evrópumótunum 2013 og 2017.

Eyjakonan Margrét Lára skoraði sitt mark úr vítaspyrnu í 1-1 jafntefli á móti Noregi á EM í Svíþjóð 2013. Markið kom þremur mínútum fyrir leikslok og tryggði íslenska liðinu stig.

Þetta var fyrsti leikur íslenska liðsins á mótinu og stelpurnar tryggðu sér svo sæti í átta liða úrslitunum með 1-0 sigri á Hollandi í lokaleik riðilsins.

Fjórum árum síðar tókst íslenska liðinu ekki að skora í fyrsta leik sem tapaðist 1-0 á móti Frakklandi.

Í öðrum leiknum á móti Sviss kom Eyjakonan Fanndís Friðriksdóttir Íslandi í 1-0 á 33. mínútu en það dugði þó ekki til því Svisslendingar skoruðu tvö mörk og tryggðu sér sigurinn.

Mark Fanndísar var eina markið í síðustu keppni en Dagný Brynjarsdóttir skoraði hitt mark íslenska liðsins á EM 2013 þegar hún skoraði sigurmarkið á móti Hollendingum.

Fyrsta mark Íslands í sögu EM skoraði síðan Hólmfríður Magnúsdóttir þegar hún kom Íslandi í 1-0 á móti Frökkum í fyrsta leik liðsins á EM í Finnlandi. Eyjakonan Margrét Lára lagði það skallamark upp með frábærri sendingu.

Þær Hólmfríður og Dagný eru kannski ekki frá Eyjum en þær eru báðar frá Suðurlandinu og hafa höfðu Vestmannaeyjar fyrir augunum nær alla daga í æsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×