Fótbolti

„Þetta dettur með okkur í næsta leik“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sveindis Jane ógnaði ítrekað með hraða sínum og krafti í dag.
Sveindis Jane ógnaði ítrekað með hraða sínum og krafti í dag. Vísir/Vilhelm

„Held að við áttum meira skilið, áttum fullt af góðum færum – dauðafærum – og hefðum getað skorað úr vítinu en svona er þetta bara,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir í viðtali við RÚV eftir landsleik Íslands og Belgí á EM kvenna í fótbolta.

Ísland gerði 1-1 jafntefli við Belgíu í D-riðli í dag. Ísland spilaði mjög vel framan af leik og var óheppið að landa ekki öllum þremur stigunum í dag. Ísland er því með eitt stig að loknum einum leik á EM.

„Við hefðum getað fengið meira út úr þessu. Við fáum klaufalegt víti á okkur en svona er þetta. Við komum sterkar til baka í næsta leik.“

„Vorum búnar að undirbúa okkur undir þetta allt. Ætluðum að spila vel og gerðum það. Þetta dettur með okkur í næsta leik,“ sagði Sveindís Jane um belgíska liðið.

Sveindís Jane fann ekki fyrir miklu stressi fyrir leik.

„Fannst þetta bara vera eins og hver annar leikur, þetta er alltaf bara fótbolti. Ég reyni ekki að pæla í mikilvægi leiksins, einbeiti mér með að mínum leik og reyni að spila minn leik. Mér leið almennt bara vel.“

Að lokum var Sveindís Jane spurð út í hvað mætti betur fara.

„Betri krossar. Krossarnir mínir voru ekki frábærir og voru ekki að rata beint á samherja. Þurfum að fínpússa það betur og nýta færin okkar betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×