Innlent

Lífeyristryggingakerfið þjóni ekki lengur markmiði sínu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hrafn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.
Hrafn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða. einar árnason

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir lífeyristryggingakerfið ekki lengur þjóna markmiði sínu. Slæmar breytingar hafi verið gerðar á kerfinu fyrir sex árum sem valda því að slóð grunnlífeyris sé nú hulin.

Þróun lífeyristryggingakerfisins hefur löngum verið milli tannana á fólki. Kerfið byggir á þremur meginstoðum sem eru almannatryggingakerfi, lífeyrissjóðakerfi og viðbótarlífeyrissparnaður.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir að til að kerfið þjóni markmiði sínu eigi almannatryggingakerfið að vera grunnstoð og lífeyrissjóðakerfið og viðbótarlífeyrissparnaðurinn koma sem viðbót við almannatryggingarkerfið, en ekki í staðinn fyrir grunnlífeyrinn.

„Í dag er búið að snúa kerfinu eiginlega á hvolf. Við byrjum á því að segja að lífeyrissjóðirnir séu grunnstoðin. Það þekkist hvergi. Alls ekki. Alls staðar eru almannatryggingar grunnstoð og svo koma lífeyrissjóðirnir sem viðbót,“ sagði Hrafn Magnússon, fyrrverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða.

Grefur undan lífeyrissjóðakerfinu

Slíkur viðsnúningur hafi slæmar afleiðingar í för með sér.

„Þeir sem hafa greitt í lífeyrissjóð í gegnum tíðina eru með lægri lífeyri heldur en þeir væntu frá almannatryggingum og margir hafa engan lífeyri frá almannatryggingum því þeir eru með þokkalegan lífeyri frá lífeyrissjóðunum. Það grefur undan lífeyrissjóðakerfinu.“

Þá segir hann að sérstaklega hafi verið bagalegt þegar grunnlífeyrinum og tekjutryggingunni var árið 2016 steypt saman í einn bótaflokk sem nú nefnist ellilífeyrir. Aðgerðin hafi verið hugsuð sem einföldun á bótakerfinu en hafi að mati Hrafns í för með sér að slóð grunnlífeyris sé nú hulin.

„Það var aldrei hugsunin“

Því þjóni kerfið í dag ekki upphaflegu markmiði sínu.

„Það eru hér þúsundir lífeyrisþegar, eldra fólk, sem fær ekki krónu frá tryggingastofnun. Það var aldrei hugsunin. Aldrei.“

Hann segir að endurskoða þurfi kerfið.

„Og þessi hugsun, að almannatryggingar eru grunnstoðin og svo koma lífeyrissjóðirnir. Það skiptir miklu máli að almannatryggingar eiga ekki að vera fátækrastofnun, en það virkar þannig í dag. Að þeir tekjulægstu þeir eiga að fá eingöngu bætur frá almannatryggingakerfinu. Því þarf að breyta, þeirri hugsun.“

Í grafík í sjónvarpsfréttinni stendur að lífeyrisjóðakerfið sé opinbert lífeyriskerfi með skylduaðild allra landsmanna. Það er ekki rétt. Hið rétta er að kerfið byggir á skylduaðild allra sem eru starfandi á aldrinum sextán ára til sjötugs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×