Fótbolti

Þorsteinn bauð upp á leiðinlegan frasa og viðurkenndi það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson og Sara Björk Gunnarsdóttir mæta hér á blaðamannafundinn í dag.
Þorsteinn Halldórsson og Sara Björk Gunnarsdóttir mæta hér á blaðamannafundinn í dag. Vísir/Vilhelm

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska landsliðsins, lagði áherslu á það við leikmenn íslenska liðsins að fara ekki fram úr sér í væntingum til Evrópumótsins í Englandi. Aðalatriðið er næsti leikur.

Í viðtölum við íslensku stelpurnar mátti heyra að þær töluðu mikið um núið og næsta leik en það var ekki hægt að fá þær til að gefa upp markmið liðsins á mótinu.

Klippa: Blaða­manna­fundur fyrir leikinn gegn Belgíu

Aðspurður um að stelpurnar hafi fengið fyrirmæli frá þjálfara sínum að gefa ekkert upp þá viðurkenndi Þorsteinn að hann vilji að allt snúist um núið hjá hans konum.

„Auðvitað förum við eftir því sem við setjum upp um það hvernig við nálgumst hlutina. Raunverulega getur þú bara spilað einn leik í einu og það er ekkert flóknara en það. Þetta er leiðinlegur frasi en er bara staðreyndir í íþróttum,“ sagði Þorsteinn Halldórsson.

„Þú þarf bara að vera í núinu og klára þitt verkefni sem þú ert að fara í hverju sinni. Það er ekkert hægt að fara fram úr því og við erum bara að einbeita okkur að því að spila á morgun og við hugsum ekkert annað um það í dag heldur en að við séum að undirbúa okkur fyrir morgundaginn,“ sagði Þorsteinn.

„Við gerum það sem best og vonandi skilar það sér að við eigum góðan leik á morgun,“ sagði Þorsteinn.

Þegar belgískur blaðamaður vildi reyna að fá Þorstein til að segja að þessi Belgaleikur væri úrslitaleikur fyrir bæði lið þá gerði hann líka lítið út því. „Þá bara vinnum við Ítalíu og Frakkland,“ sagði Þorsteinn léttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×