Sara Björk Gunnarsdóttir spilaði sinn fyrsta byrjunarlandsliðs í eitt og hálft ár þegar Ísland mætti Póllandi á dögunum. Athygli vakti að Sara var aftur kominn með fyrirliðabandið en Gunnhildur Yrsa hafði skilað því hlutverki með miklum glæsibrag á meðan Sara var í barneignarfríi.
Gunnhildur var ekkert að svekkja sig yfir því að missa bandið svo skömmu fyrir stórmót.
„Ég vissi það að Sara Björk er búin að vera fyrirliði í þessu liði síðan að ég man eftir mér. Við vissum það því alveg þegar hún kæmi til baka þá myndi hún taka bandið til baka,“ sagði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir á æfingu íslenska liðsins í Crewe í dag.
Gunnhildur talar vel um Söru Björk en þær byrjuðu saman á miðjunni með Dagnýju Brynjarsdóttur út í Póllandi. Það er erfitt að finna reyndari miðju en þegar þessar þrjár mæta til leiks.
„Hún er frábær leiðtogi og búin að gera þetta vel. Hún hefur alltaf verið leiðtogi í þessu liði,“ sagði Gunnhildur. Það sem er á hreinu að það eru margir leiðtogar í íslenska liðinu og enginn þeirra mun spila eitthvað öðruvísi hvort þær eru með bandið eða ekki.
„Ég er ekkert að fara breytast. Ég mun alltaf vera sami leikmaður hvort sem ég er með bandið eða ekki. Eins og ég hef alltaf sagt í þessum viðtölum þá er þessi hópur geggjaður og það gæti hver sem er verið leiðtogi í þessu liði,“ sagði Gunnhildur.
Hún hrósar liðsfélögum sínum líka eins og sannur leiðtogi.
„Þær eru allar geggjaðar og tilbúnar að stíga upp. Það eru allir með sitt hlutverk á hreinu og það er síðan frábært að eiga leikmann eins og Söru sem gengur út með liðið. Hún er heimsklassa leikmaður,“ sagði Gunnhildur.