Fótbolti

Segja að Galatasaray hafi boðið Gylfa 280 milljónir í laun á ári

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson lék sinn síðasta fótboltaleik fyrir meira en ári síðan.
Gylfi Þór Sigurðsson lék sinn síðasta fótboltaleik fyrir meira en ári síðan. Getty/Visionhaus

Gylfi Þór Sigurðsson er nú orðaður við tyrkneska félagið Galatasaray samkvæmt fréttum að utan.

Tyrkneskur miðill sló því upp að íslenski miðjumaðurinn hafi fengið tveggja ára samningstilboð frá liðinu.

Samkvæmt AS Marca í Tyrklandi þá á Gylfi meira að segja að hafa samþykkt þennan samning sem á að skila honum tveimur milljónum evra í árslaun eða tæplega 280 milljónir króna.

Gylfi hefur ekki spilað fótbolta í meira en ár, hvorki fyrir félagslið eða landsliðs og samningur hans við Everton rann út á dögunum. Gylfi var handtekinn í fyrrasumar þar sem hann var grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Rannsókn málsins er enn í gangi og Gylfi er því enn í farbanni.

Gylfi var dýrasti leikmaðurinn í sögu Everton þegar félagið keypti hann á 40 milljónir punda árið 2017. Hann skoraði 31 mark í 156 leikjum fyrir félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×