Innlent

Rósa með rúmlega 2,2 milljónir í laun á mánuði

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ráðningarsamningur Hafnarfjarðarbæjar við Rósu Guðbjartsdóttur var samþykktur á bæjarráðsfundi í gær.
Ráðningarsamningur Hafnarfjarðarbæjar við Rósu Guðbjartsdóttur var samþykktur á bæjarráðsfundi í gær. Vísir/Vilhelm

Meirihluti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar samþykkti ráðningarsamning við Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins, á fundi bæjarráðs í gær. Hún fær rúmar 2,2 milljónir í laun á mánuði þegar yfirvinnutímar, ökutækjastyrkur og laun fyrir störf hennar sem bæjarfulltrúi bætast ofan á grunnlaun hennar.

Í drögum að ráðningarsamningnum sem bæjarstjórn samþykkti í gær stendur að laun bæjarstjóra fyrir dagvinnu skuli vera 1.247.787 krónur og að dagvinnulaun á samningstímanum taki breytingum tvisvar á ári, 1. janúar og 1. júlí, ár hvert í samræmi við launavísitölu Hagstofu Íslands. 

Þá segir að föst yfirvinna bæjarstjóra séu 50 tímar á mánuði sem samkvæmt útreikningi Fréttablaðsins gera 647.913 krónur. Samkvæmt samningnum fær bæjarstjóri einnig greiddan aksturskostnað sem nemur 500 kílómetrum á mánuði auk kostnaðar af síma og nettengingu. Ökutækjastyrkurinn nemur því 63.500 krónum.

Þegar yfirvinnutímarnir, ökutækjastyrkurinn og laun sem Rósa fær fyrir störf sín sem bæjarfulltrúi bætast við grunnlaun hennar fara heildarlaun hennar upp í rúmlega 2,2 milljónir á mánuði.

Tillaga um launalækkun felld

Á fundinum lagði Jón Ingi Hákonar­son, full­trúi Við­reisnar, til að laun Rósu fylgdu ráð­herra­launum, yrðu 1.826.273 krónur og öku­tækja­styrkur yrði af­numinn og í staðinn greitt samkvæmt raunverulegum akstri bæjarstjóra. Sú tillaga var felld af meirihlutanum en fulltrúar Samfylkingarinnar sátu hjá.

Einnig lagði Jón Ingi til að gerð yrði starfs­lýsing á starfi bæjar­stjóra þar sem starfs­svið, réttindi og skyldur yrðu skil­greind, það myndi auka gagnsæi stjórnsýslunnar og gera hana faglegri. Sú tillaga var einnig felld af meirihlutanum.

Í kjölfarið var ráðningarsamningur bæjarstjóra tekinn til afgreiðslu og samþykktur með þremur atkvæðum frá fulltrúum meirihluta. Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu í kjölfarið fram eftirfarandi bókun:

„Ráðning bæjarstjóra er á ábyrgð meirihluta bæjarstjórnar, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, með stuðningi fulltrúa Viðreisnar. Samfylkingin sat þar hjá. Sama gildir um tillögu um kaup og kjör bæjarstjóra. Ábyrgð á þeirri niðurstöðu er eftir sem áður á hendi meirihluta bæjarstjórnar.“

Tengd skjöl



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×