Erlent

„Eitt ríki, tvö kerfi“ verður stefna Kína í málefnum Hong Kong um ókomna tíð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jinping sagði „eitt ríki, tvö kerfi“ verða stefnu stjórnvalda gagnvart Hong Kong um ókomna tíð.
Jinping sagði „eitt ríki, tvö kerfi“ verða stefnu stjórnvalda gagnvart Hong Kong um ókomna tíð. AP/Selim Chtayti

Stefna Kína um „eitt ríki, tvö kerfi“ hefur reynst vel og verður áfram viðhöfð. Þetta segir Xi Jinping, forseti Kína, en Kínverjar fagna því nú að 25 ár eru liðin frá því að Bretar létu borgina af hendi.

Mikil öryggisgæsla er í Hong Kong, þar sem Xi er staddur í heimsókn.

Forsetinn lagði mikið upp úr því í ræðu sinni til að marka tímamótin að verja stefnu kínverskra stjórnvalda hvað varðar Hong Kong, sem hefur sætt mikilli gagnrýni.

„Eitt ríki, tvö kerfi“ stefnan gengur út á að Hong Kong tilheyri Kína og sé hluti af Kína en sé á sama tíma sjálfráð um ýmis málefni og að íbúar borgarinnar njóti ýmissa réttinda sem aðrir íbúar Kína njóta ekki, til að mynda tjáningarfrelsis og frelsis til að mótmæla.

Fyrirkomulagið má rekja til samkomulags milli Breta og Kínverja og er fest í lög í Hong Kong. Samkomulagið gildir hins vegar aðeins til 2047, sem er nokkuð sem margir íbúar Hong Kong hafa nokkrar áhyggjur af.

Xi sagði hins vegar í morgun að „eitt ríki, tvö kerfi“ þyrfti að verða hin opinbera stefna um ókomna tíð. Hann sagði kerfið hafa tryggt íbúum Hong Kong stöðugleika og öryggi í 25 ár, auk þess að vernda grundvallarhagsmuni Kína.

Ekki eru allir á sama máli og Xi en aukin afskipti kínverskra stjórnvalda, meðal annars aðgerðir gegn tjáningarfrelsinu, hafa vakið hörð viðbrögð og mótmæli meðal íbúa Hong Kong og vestrænna ríkja. 

Bretar hafa gengið svo langt að saka Kínverja um að hafa brotið gegn samkomulaginu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×