Fótbolti

Á­hugi frá Eng­landi, Ítalíu og Þýska­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mikael Anderson í leik með íslenska landsliðinu.
Mikael Anderson í leik með íslenska landsliðinu. Getty/Mateusz Slodkowski

Fjöldi liða virðist hafa áhuga á íslenska landsliðsmanninum Mikael Neville Anderson sem leikur með danska úrvalsdeildarfélaginu AGF.

Danski miðillinn Bold greinir frá að lið frá Englandi, Ítalíu og Þýskalandi hafi áhuga á að fá Mikael í sínar raðir í sumar. Mikael gekk í raðir AGF frá Midtjylland fyrir síðasta tímabil og þó gengi AGF hafi ekki verið eins og best verður á kosið tókst Mikael að heilla með spilamennsku sinni.

Í frétt Bold segir að íslenski landsliðsmaðurinn hafi verið einn af fáum ljósum punktum í spilamennsku liðsins.

Ekkert tilboð hefur enn borist en Mikael sagði í viðtali nýverið að hann væri ánægður með nýjan þjálfara liðsins, Uwe Rösler, og virðist sem sá ætli íslenska landsliðsmanninum stórt hlutverk á komandi leiktíð.

Mikael er 23 ára gamall, spilað 14 A-landsleiki og skorað í þeim eitt mark. Er hann samningsbundinn AGF til ársins 2026.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.