Innlent

Hækka frí­stunda­styrk um helming

Árni Sæberg skrifar
Einar Þorsteinsson er formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjórans Dags B. Eggertssonar um þessar mundir.
Einar Þorsteinsson er formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjórans Dags B. Eggertssonar um þessar mundir. Vísir/Vilhelm

Borgarráð hefur samþykkt að hækka frístundastyrk í 75 þúsund krónur fyrir hvert barn þann 1. janúar 2023.

Sex til átján ára börn og unglingar með lögheimili í Reykjavík munu eiga rétt á 75 þúsund króna styrk til íþrótta-, lista- og tómstundastarfs frá og með næstu áramótum.

Samþykkt borgarráðs byggir á tillögu menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sem samþykkt var í því ráði síðastliðinn mánudag og er í samræmi við ákvæði í meirihlutasáttmála Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar auk þess sem fleiri flokkar í borgarstjórn hafa kynnt sambærileg áform, að því er segir í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Vonast til að auka þátttöku barna í frístundum

Í tilkynningu segir að markmiðið með hækkun frístundastyrksins að þessu sinni sé að auka enn frekar þátttöku barna í virkum frístundum í borginni. Styrkurinn sé samfélagsverkefni sem hafi það að markmiði að tryggja að opinber stuðningur skili sér sem best og nýtist vel þeim sem vegna efnahags eða félagslegra aðstæða eiga ekki jafn auðvelt og aðrir að taka þátt í skipulögðu frítímastarfi.

Þá sé hann einnig liður í lýðheilsustefnu borgarinnar, með honum séu skapað umhverfi og aðstæður sem auka jöfnuð heilsu og hamingju barna.

Hækkunin kostar 443 milljónir króna

Frístundastyrkur Reykjavíkurborgar hefur verið fimmtíu þúsund krónur frá 1. janúar 2017. Helmingshækkunin nú kostar borgina 443 milljónir króna.

Ætlun borgarinnar er að hækkunin renni fyrst og fremst til barnafjölskyldna. Í tilkynningu segir að Íþróttabandalag Reykjavíkur muni hér eftir sem hingað til fylgjast með þátttökugjöldum félaga sinna og gæta þessa að iðkendagjöld þróist í takt við almennt verðlag þannig að hækkun frístundastyrksins renni fyrst og fremst til barnafjölskyldna í borginni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×