Innlent

Víkingur Heiðar og EFLA hlutu útflutningsverðlaunin

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Verðlaunin voru veitt á Bessastöðum í dag.
Verðlaunin voru veitt á Bessastöðum í dag. Stöð 2/Ívar

Fyrirtækið EFLA hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands og Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari var heiðraður fyrir störf sín á erlendri grundu. Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Í tilkynningu segir að EFLA hafi á undanförnum árum skapað sér sess sem alhliða þekkingarfyrirtæki og unnið markvert starf við að koma hugviti sínu og vörum á framfæri erlendis. EFLA er nú stærsta verkfræðistofa Íslands og hefur tekist að marka sér spor sem þekkingarfyrirtæki á heimsvísu.

Samhliða afhendingu Útflutningsverðlaunanna var Víkingi Heiðari, píanóleikara, veitt heiðursviðurkenning fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grundu. Meðal fyrri verðlaunahafa eru m.a. Baltasar Kormákur, frú Vigdís Finnbogadóttir, Arnaldur Indriðason og Björk.

Víkingur Heiðar er einn fremsti píanóleikari landsins en undanfarin 10 ár hefur stjarna hans risið hratt á erlendri grundu og hefur hann unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna og var meðal annars valinn listamaður ársins hjá Gramophone-tímaritinu árið 2019 auk þess að hljóta verðlaun fyrir plötu ársins hjá BBC Music Magazine sama ár.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 34. sinn en þau voru fyrst afhent árið 1989. Meðal fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Íslensk erfðagreining, Icelandair, Nox Medical, Bláa lónið og Lýsi hf, og á síðasta ári hlaut Controlant verðlaunin.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.