Íslenski boltinn

Hefði kostað Keflavík eina milljón dollara

Sindri Sverrisson skrifar
Ivan Kaliuzhnyi staldraði stutt við hjá Keflavík en heillaði með frammistöðu sinni.
Ivan Kaliuzhnyi staldraði stutt við hjá Keflavík en heillaði með frammistöðu sinni. Keflavík

Úkraínski miðjumaðurinn Ivan Kaliuzhnyi hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Keflavík í Bestu deildinni í fótbolta en lánssamningur hans rennur út í byrjun næsta mánaðar.

Kaliuzhnyi féll í hendur Keflvíkinga í vor þegar hann kom að láni frá FK Oleksandriya vegna stríðsins í Úkraínu. Hann er 24 ára miðjumaður og lék sjö leiki fyrir Keflavík.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, segist í samtali við Fótbolta.net vera að horfa á eftir einum besta leikmanni sem spilað hafi á Íslandi.

„Mér finnst hann hafa siglt svolítið undir radarinn í fjölmiðlum á Íslandi. Þetta er held ég einn besti leikmaður sem hefur spilað á Íslandi, enda er hann byrjunarliðsmaður í sjötta besta liði Úkraínu sem er áttunda besta deild í Evrópu. Ég held að þeir sem hafi séð hann eftir fyrstu leikina geti verið sammála mér í því,“ segir Sigurður Ragnar við Fótbolta.net.

Keflavík freistaði þess að halda leikmanninum: „Við reyndum mjög mikið að halda honum. Hann er samningsbundinn Oleksandriya í þrjú ár í viðbót og eigandinn sagði að Ivan væri til sölu á eina milljón dollara,“ segir Sigurður Ragnar.

Þjálfarinn bætir því við að Keflvíkingar séu nú að leita að liðsstyrk og hafi áhuga á að sækja sér 1-2 leikmenn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.