Innlent

Fjöldi sjálfs­víga 2021 svipaður og síðustu ár

Atli Ísleifsson skrifar
Embætti landlæknis hefur tekið saman tölur um fjölda sjálfsvíga á síðasta ári.
Embætti landlæknis hefur tekið saman tölur um fjölda sjálfsvíga á síðasta ári. Vísir/Vilhelm

Alls sviptu 38 manns sig lífi á Íslandi á árinu 2021, eða 10,2 á hverja 100 þúsund íbúa. Fjöldinn er áþekkum þeim á síðustu árum, en að meðaltali voru 38 sjálfsvíg á ári síðustu fimm árin, 2017 til 2021, eða 10,7 á hverja 100 þúsund íbúa.

Frá þessu segir á vef Embættis landlæknis. Sé litið til fimm ára tímabilsins þar á undan, það er 2012 til 2016, voru sjálfsvíg að meðaltali 42 á ári, eða 12,9 á hverja 100 þúsund íbúa. Ítarlegri tölfræði um sjálfsvíg má finna í gagnvirku mælaborði og töflum.

Opinber tölfræði um sjálfsvíg byggir á upplýsingum um dánarorsakir einstaklinga með lögheimili á Íslandi við andlát sem skráðar eru í dánarmeinaskrá landlæknis. Fjöldi sjálfsvíga tekur til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði er skráð vísvitandi sjálfsskaði.

„Skráningu dánarmeina er ekki hægt að ljúka fyrr en öll gögn og krufningaskýrslur frá réttarmeinafræðideild Landspítala hafa borist embætti landlæknis. Ferlið getur því verið nokkuð tímafrekt,“ segir á vef Embættis landlæknis.

Ennfremur segir að vegna fámennis þjóðarinnar geti litlar breytingar á fjölda valdið nokkrum sveiflum í dánartíðni milli ára. Talsvert miklar sveiflur þurfi að verða til þess að hægt sé að staðhæfa að um marktæka breytingu sé að ræða og því sé mikilvægt að túlka ekki sex mánaða bráðabirgðatölur sem vísbendingu um aukningu eða samdrátt á tíðni sjálfsvíga.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á þjónustu Pieta-samtakanna. Síminn hjá Pieta-samtökunum er opinn allan sólarhringinn, númerið er 552-2218.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.