„Thomas er gríðarlega fær afrekssálfræðingur sem mun án nokkurs vafa lyfta starfi okkar upp á enn hærra plan,“ segir á vef KA um ráðningu Danans sem Hallgrímur Jónasson, spilandi aðstoðarþjálfari KA, kynntist hjá SönderjyskE í Danmörku.
Danielsen hefur unnið með fjölda afreksíþróttafólks og þar á meðal eru ólympíufarar, atvinnukylfingar, landsliðsmenn í fótbolta og handbolta, og verðlaunahafar í frjálsum íþróttum, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækis hans. Þar auglýsir hann eftir viðskiptavinum sem vilja til dæmis hjálp til að vinna sinn fyrsta titil, auka leiðtogahæfni sína eða einfaldlega fá meiri gleði í sitt líf.
Danielsen kom í fyrra til Akureyrar og flutti þar fyrirlestra fyrir þjálfara, leikmenn og foreldra hjá KA, og heillaði viðstadda eins og ráðningin sýnir.
Eftir algjöra draumabyrjun í Bestu deildinni í sumar hafa KA-menn nú leikið fjóra leiki í röð án sigurs og sitja í 5. sæti með 17 stig, tíu stigum á eftir toppliði Breiðabliks. Næsti leikur KA er á hinum nýja KA-velli gegn Val á mánudagskvöld klukkan 18.