Fótbolti

Má ekki spila á HM vegna samnings við rúss­neskt fé­lags­lið

Atli Arason skrifar
Maciej Rybus í landsleik gegn Albaníu í undankeppni HM í september.
Maciej Rybus í landsleik gegn Albaníu í undankeppni HM í september. Getty Images

Pólski bakvörðurinn Maciej Rybus hefur fengið þau skilaboð að hann megi ekki spila með pólska landsliðinu á HM eftir að hann gerði samning við rússneska liðið Spartak Moskvu fyrr í mánuðinum.

Rybus, sem hefur leikið 66 landsleiki með Póllandi gerði samning við Spartak Moskvu fyrir einungis níu dögum síðan, þann 11. júní.

Pólska þjóðin hefur staðið með Úkraínu gegn innrás Rússa inn í landið frá upphafi. Pólverjar voru fyrstir til að neita að spila gegn Rússlandi í umspili um laust sæti á HM í Katar en Pólverjar fengu Svía og Tékka með sér í lið sem varð að lokum til þess að Rússum var meinuð þátttaka í öllum keppnum á vegum FIFA.

Pólverjar hafa einnig tekið á móti meira en 3,5 milljón flóttamönnum frá Úkraínu en löndin tvö deila landamærum.

Maciej Rybus spilaði með Lokamotiv Moskvu frá árinu 2017 áður en hann skipti yfir til Spartak í júní. Vera Rybus hjá Lokamotiv stóð ekki í vegi fyrir að leikmaðurinn væri kallaður upp í pólska landsliðshópinn sem vann Svíþjóð í umspili um laust sæti á HM í mars.

Þessi 32 ára gamli leikmaður varð þó að draga sig úr þeim landsliðshóp vegna kórónuveirusmits og hefur hann ekki verið kallaður aftur inn í hópinn síðan þá.

„Landsliðsþjálfarinn [Michniewicz] hefur upplýst leikmanninn [Rybus] að vegna stöðu hans í félagsliði sínu þá verði hann ekki kallaður upp í næsta landsliðshóp í september né í hópinn sjálfan fyrir HM í Katar,“ er sagt í tilkynningu frá pólska knattspyrnusambandinu. BBC greinir frá.

Pólland er með Mexíkó, Sádi-Arabíu og Argentínu í riðli á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×