Innlent

Hyggjast banna lausa­­göngu katta að nætur­lagi

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Köttur í Reykjavík sem tengist fréttinni ekki beint.
Köttur í Reykjavík sem tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Vilhelm

Bæjarstjórn Fjallabyggðar hyggst banna lausagöngu katta að kvöld- og næturlagi eða á meðan varptími fugla stendur sem hæst. Formaður skipulags- og umhverfisnefndar segir ketti hafa verið að valda töluverðum usla í sveitarfélaginu.

Það má segja að kettir landsins hafi átt undir högg að sækja á sveitarstjórnarstiginu víðs vegar um land. Í Norðurþingi hefur lausaganga katta verið bönnuð í meira en áratug og í nóvember í fyrra samþykkti meirihluti bæjarstjórnar á Akureyri að banna lausagöngu katta í bænum frá 1. janúar 2025. Þá stendur nú til að banna lausagöngu katta í Fjallabyggð en beiðni þess efnis var send til skipulags- og umhverfisnefndar og samþykkt einróma. 

Arnar Þór Stefánsson er formaður nefndarinnar. Hann segir að nefndinni hafa borist fjölmargar kvartanir vegna katta sveitarfélagsins sem eru 33 talsins.

„Það kemur upp úr krafsinu að það er ákveðið að stíla þetta bann á varptímann. Það var það sem fólk var óánægt með, að kettir voru að eltast við unga sérstaklega.“

Mun bannið því gilda frá 1. maí til 15. júlí á nóttunni en Arnar segir niðursstöðu nefndarinnar hafa verið málamiðlun sem sé ansi líkleg til að verða samþykkt af bæjarstjórn.

„Það eru allir sammála því að banna lausagönguna yfir varptímann og stuðla þannig að sátt milli kattaeigenda og annarra.“

Arnar kveðst spenntur fyrir komandi kjörtímabili en Fjallabyggð hefur nú auglýst eftir arftaka Elíasar Péturssonar sem sækist ekki eftir endurráðningu.

„Þetta lítur bara mjög vel út, það er blússandi uppgangur í samfélaginu og það er mjög spennandi að halda áfram með þau verkefni sem hafa verið í gangi,“ sagði Arnar Þór að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×