Innlent

Lík­legast að út­breitt ó­næmi haldi dreifingu veirunnar í skefjum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.
Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans. Vísir/Vilhelm

Yfirlæknir á Landspítala segir að fjöldi sjúklinga sem liggja inni vegna Covid-19 sé í nokkru jafnvægi. Hann segir óljóst hvort búast megi við mikilli fjölgun smitaðra eða hvort víðtækt ónæmi komi í veg fyrir stórar bylgjur.

Nú liggja 29 inni á spítalanum með Covid-19, en fjórir voru útskrifaðir í gær á meðan einn var lagður inn. Einn sjúklingur lést þá á spítalanum í gær. Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar, segir hóp þeirra sem lagst hefur inn skiptast til helminga.

„Annars vegar fólk sem hefur lagst inn vegna Covid, eða afleiðinga Covid og svo hins vegar fólk sem hefur fengið smit hér innan spítalans.“

Tilfellum Covid í samfélaginu hefur fjölgað nokkuð að undanförnu. Már segir þó ekki víst að ný bylgja sé í uppsiglingu.

„Það fer eftir því meðal annars hversu öflugt ónæmissvarið sem er þó til í samfélaginu er í því að hemja útbreiðslu. Það er einn óvissuþáttur sem ég hef ekki svar við,“ segir Már. 

Líklegast að taktur náist 

Már segir að vonir standi til að ónæmi vegna bólusetninga og fyrri sýkinga komi í veg fyrir að veiran tröllríði samfélaginu líkt og á fyrri stigum faraldursins. Ný bylgja sé þó ekki óhugsandi.

„Það sem er kannski líklegra er að það verði alltaf einhver grunntaktur og svo kannski komi upp einstaka hópsýkingar, eins og kannski inni á sjúkrahúsum eða dvalarheimilum aldraðra eða öðrum þeim stöðum þar sem fólk er í mikilli nánd eða stendur höllum fæti.“

Áhugavert verði að sjá áhrif mannamóta gærdagsins, 17. júní, á gang mála.

„Það mun bara verða ljóst á næstu viku, tíu dögum, hvort það verður veruleg aukning í tilfellum og þá hvaða afleiðingu það hefur fyrir stofnun á borð við Landspítalann,“ segir Már.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×