Fótbolti

App­le kaupir réttinn að Arnóri, Róberti, Þorleifi og fé­lögum í MLS-deildinni fyrir met­fé

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi í vægast sagt íslensku veðri með New England Revolution.
Arnór Ingvi í vægast sagt íslensku veðri með New England Revolution. Andrew Katsampes/Getty Images

Hugbúnaðarrisinn Apple hefur keypt sýningarréttinn að MLS-deildinni í fótbolta fyrir tvo og hálfan milljarð Bandaríkjadala. Samsvarar það tæplega 332 milljörðum íslenskra króna. Samningurinn gildir til tíu ára.

Frá og með næsta ári mun hugbúnaðarfyrirtækið Apple sýna frá öllum leikjum MLS-deildarinnar í fótbolta. Hægt verður að horfa á alla leiki í öllum mögulegum Apple-tækjum. Þá verða ýmiskonar tilboð, árspassar og fleira því um líkt í boði.

MLS er efsta deild fótboltans í Bandaríkjunum. Líkt og í öðrum íþróttum þar í landi falla lið hvorki né komast upp um deild. Til að taka þátt í MLS-deildinni þurfa lið að kaupa sig inn í deildina og má áætla að nýr sjónvarpsréttur geri það töluvert dýrara en að sama skapi töluvert hagstæðara.

Í deildinni spila nú þrír íslenskir leikmenn: Arnór Ingvi Traustason með New England Revolution, Róbert Orri Þorkelsson með CF Montréal og Þorleifur Úlfarsson með Houston Dynamo. Þá varð Guðmundur Þórarinsson meistari með New York City á síðustu leiktíð.

Til þessa hefur sjónvarpssamningur deildarinnar ekki verið mikils virði ef miðað er við stærstu íþróttir Bandaríkjanna. Hugbúnaðarrisinn er hins vegar til í að skuldbinda sig til tíu ára og borga fyrir það tæplega 332 milljarða íslenskra króna.

Það sem gerir samninginn enn merkilegri er að Apple mun ekki endilega eiga einkarétt á sýningarréttinum. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða áhrif þetta hefur á deildina en mögulega mun þetta trekkja fleiri stjörnur að. Hver veit nema Lionel Messi taki tilboði David Beckham og spili fyrir Inter Miami fyrr en síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×