Innlent

Hálft ár síðan verkinu átti að ljúka og veg­far­endur bíða spenntir eftir verk­lokum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Arnaldur hjólar um Litluhlíð nær alla daga sem getur verið erfitt verk.
Arnaldur hjólar um Litluhlíð nær alla daga sem getur verið erfitt verk. Vísir/Sigurjón

Mikil óánægja er meðal íbúa og vegfarenda í Hlíðahverfi vegna frágangs á hjóla- og göngustíg við Litluhlíð, semátti að klára átti í byrjun árs en er enn ekki hægt að nota. Hjólreiðamaður segir aðförina að einkabílnum ekkert miðað við þá að reiðhjólum.

Hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur bíða fullir eftirvæntingar eftir að geta ferðast um ný undirgöng undir Litluhlíð.

Framkvæmdir hófust við Litluhlíð fyrir neðan Bústaðarveg í maí í fyrra við gerð nýs göngu- og hjólastígar og undirganga undir götuna. Akstursgatan opnaði fyrir umferð í vetur en göngu- og hjólastígurinn er enn ekki kominn í gagnið.

„Þetta er búið að vera ansi leiðinlegt ástand. Maður sá þetta byrja að gerast hérna í nóvember og maður farinn að hlakka til að geta nýtt þessi undirgöng og svo er þetta alltaf farið að frestast, lengra og lengra. Síðast heyrði maður að þetta ætti að klárast í júní og núna í júlí,“ segir Arnaldur Sigurðarson, hjólreiðamaður.

Arnaldur hjólar um svæðið alla daga, til og frá vinnu, sem getur gengið erfiðlega.

„Það eru í rauninni tvær leiðir í boði hérna, það er í gegnum hverfið, fram hjá skólanum með tilheyrandi umferð eða þá hérna fram hjá strætóskýlinu. En það er búið að taka umferðarljósið fyrir gangandi út af þessum nýju framkvæmdum þannig að það er engin auðveld leið hérna fram hjá,“ segir Arnaldur. 

Arnaldur vakti athygli á stöðunni á samfélagsmiðlum og hefur fengið miklar undirtekir frá íbúum í hverfinu og vegfarendum.

„Maður heyrir alltaf af þessari blessuðu aðför að einkabílnum en við hjólandi þurfum alltaf að bíða töluvert lengur eftir svona framkvæmdum.“

Fram kemur í svari Háfells ehf., verktakans sem annast framkvæmdina, að verklok hafi tafist um marga mánuði vegna aðkomu Veitna að framkvæmdinni. Áætluð verklok séu nú 10. júlí þó það geti frestast.

„Það kemur kannski hvergi skýrara fram en hérna. Það stóð á skiltinu að þetta yrði klárað í nóvember í fyrra og það er búið að teipa fyrir það. Þannig að maður veit aldrei hvenær þetta er búið,“ segir Arnaldur og bendir. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×