Fótbolti

Guðrún og stöllur enn á toppnum eftir stórsigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar eru ósigraðar á toppi deildarinnar.
Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar eru ósigraðar á toppi deildarinnar. Twitter @FCRosengard

Fimm leikir fóru fram í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag og voru Íslendingar í eldlínunni í fjórum þeirra. Guðrún Arnardóttir og stöllur hennar í Rosengård unnu 5-2 stórsigur gegn Umeå og eru enn taplausar á toppi deildarinnar.

Heimakonur í Rosengård tóku forystuna strax á tíundu mínútu leiksins áður en Olivia Schough sá til þess að staðan var 2-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Heimakonur bættu þriðja og fjórða markinu við snemma í síðari hálfleik, og gerðu svo algjörlega út um leikinn með marki á 84. mínútu. Gestirnir náðu þó að klóra í bakkann á lokamínútum leiksins og minnkuðu muninn í 5-2 áður en lokaflautið gall.

Guðrún lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Rosengård, en liðið trónir enn á toppi deildarinnar með 36 stig eftir 14 leiki. Liðið hefur ekki enn tapað leik og er með fimm stiga forskot á toppnum.

Þá vann Kristianstad góðan 1-2 útisigur gegn Brommapokjarna þar sem Amanda Andradóttir og Emelía Óskarsdóttir komu inn af varamannabekknum. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar liðið sem situr nú í þriðja sæti.

Hallbera Guðný Gísladóttir og stöllur hennar í Kalmar þurftu hins vegar að sætta sig við 4-0 tap er liðið heimsótti Hammarby og þá sátu Agla María Albertsdóttir og Diljá Ýr Zomers á varamannabekk Häcken er liðið tapaði 2-3 gegn Vittsjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×