Innlent

Dómur stað­festur í Bræðra­borgar­stígs­málinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Landsréttur hefur staðfest dóm yfir Marek Moszczynski vegna íkveikjunnar á Bræðraborgarstíg í júní fyrir tæpum tveimur árum.
Landsréttur hefur staðfest dóm yfir Marek Moszczynski vegna íkveikjunnar á Bræðraborgarstíg í júní fyrir tæpum tveimur árum. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur staðfest dóm yfir Marek Moszczynski vegna íkveikjunnar á Bræðraborgarstíg í júní fyrir tæpum tveimur árum síðan þar sem þrír létust. Dómurinn felur í sér að hann muni sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.

Dómurinn féll í Landsrétti í dag en ríkissaksóknari skaut málinu til Landsréttar í september í fyrra. Kröfur ákæruvaldsins voru að dómurinn yrði staðfestur en hinn ákærði, Marek Mozczynski fór fram á sýknu en til vara að honum yrði hvorki gerð refsing né gert að sæta öryggisvistun.

Tveir létust í brunanum sjálfum þann 25.júní fyrir tæpum tveimur árum síðan og þá lést kona af völdum höfuðáverka en hún féll niður af þriðju hæð hússins þegar hún reyndi að flýja eldinn.

Í dómi Landsréttar kemur fram að Marek hafi verið ákærður fyrir brennu, manndráp og tilraun til manndráps með því að hafa kveikt eld á gólfi í herbergi sínu á annari hæð hússins við Bræðraborgarstíg 1 og á tveimur stöðum í sameiginlegu rými á sömu hæð.

Þá var Marek einnig ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið tvo lögreglumenn með gúmmímottu þar sem þeir voru við skyldustörf utandyra við rússneska sendiráðið.

Í dómnum kemur ennfremur fram að Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að sannað væri að Marek hefði framið þau brot sem ákært væri fyrir. Ákæruvaldið undi niðurstöðu héraðsdóms um að ekki skyldi refsa Marek. Í ljósi alvarleika háttsemi hans og skýrslu matsmanna fyrir dómi og framburði geðlæknis fyrir Landsrétti kom ekki til greina að öryggisgæslan sem honum hafi verið ákveðin yrði felld niður.

Marek var einnig dæmdur til greiðslu miskabóta og sakarkostnaðs.

Dóm Landsréttar má sjá hér.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×