Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Á vefnum Loftgæði.is, þar sem fylgst er með styrk svifryks má sjá að mælirinn í Dalsmára í Kópavogi sýnir litakóðann rauðan, sem þýðir að styrkur svifryks er óhollur.
Óholl = Mikil loftmengun. Einstaklingar með alvarlega hjarta- og/eða lungasjúkdóma ættu að forðast að vera úti þar sem hætta er á mikilli mengun. Forðast ætti að vinna erfiðisvinnu eða að stunda líkamsrækt utandyra þar sem loftmengun er mikil.
Klukkan níu í morgun var klukkustundargildi svifryks við Grensásveg 97 míkrógrömm á rúmmetra, í mælistöð á gatnamótum Bústaðarvegar og Háaleitisbrautar var klukkustundargildið 93,5 míkrógrömm á rúmmetra og í mælistöð við Laugarnes 74,8 míkrógrömm á rúmmetra.
Sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir svifryk (PM10) eru 50 míkrógrömm á rúmmetra.
Í tilkynningu borgarinnar segir að samkvæmt Veðurstofu Íslands sé ryk að berast inn á höfuðborgarsvæðið frá söndunum á Suðurlandi. Hægur vindur hefur verið í borginni og því hefur rykið haldist á svæðinu. Búist er við að bæti í vind þegar líða fer á daginn og ættu loftgæði að fara batnandi.
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetur þá sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraða og börn til að forðast útivist meðan svifryk er hátt.