Innlent

Hæst dæmdi hestur í heimi: Ég svíf bara, segir ræktandinn

Árni Sæberg skrifar
Nýtt heimsmet var slegið þegar Helga Una Björnsdóttir sýndi stóðhestinn Viðar frá Skör á Hellu og hleut hann í aðaleinkunn 9,04.
Nýtt heimsmet var slegið þegar Helga Una Björnsdóttir sýndi stóðhestinn Viðar frá Skör á Hellu og hleut hann í aðaleinkunn 9,04. Eiðfaxi/Nicki Pfau

Nýtt heimsmet var slegið á kynbótabrautinni á Gaddstaðaflötum á Hellu í dag þegar stóðhesturinn Viðar frá Skör hlaut 9,04 í aðaleinkunn. Er hann þar með hæst dæmdi kynbótahestur í heimi, en það var afreksknapinn Helga Una Björnsdóttir sem sýndi Viðar af mikilli fagmennsku. Fáheyrð einkunn var gefin bæði fyrir hæfileika og sköpulag.

Með þessu er fyrra heimsmet Þráins frá Flagbjarnarholti fallið, sem hlaut 8,95 í aðaleinkunn árið 2018. Greint var frá heimsmetinu á www.eidfaxi.is

„Ég svíf bara og er svolítið lítill í mér,“ sagði Karl Áki Sigurðsson, ræktandi Viðars, í samtali við fréttastofu, hrærður yfir árangri hestsins, en um stórviðburð er að ræða í hestaheiminum. „Það er einsdæmi að rækta svona hest. Það var alveg meiriháttar að horfa á sýninguna og Helga Una gerði það frábærlega.“

Viðar er undan Hrannari frá Flugumýri II og Vár frá Auðsholtshjáleigu. Ræktandi er Karl Áki, eins og fyrr segir, og eigendur Gitte og Flemming Fast, frá Danmörku.

„Viðar sýndi strax mikla hæfileika 4 vetra gamall og þá þegar var sagt í gríni að þessi hestur ætti eftir að slá heimsmet. Ótrúlegir ganghæfileikar komu mjög fljótt í ljós og svo er geðslag hestsins algert úrval,“ segir Karl Áki, sem var í áhorfendabrekkunni að fylgjast með í dag. ,,Ég er ekki kominn niður á jörðina ennþá. Þetta er svo ótrúlegt þegar vel gengur.“

Í meðfylgjandi myndbandi frá streymisveitunni Alendis TV má sjá valin brot úr stjörnusýningu Helgu Unu á Viðari frá Skör í dag.

Hér má sjá dóm Viðars frá Skör:

  • IS2014101486 Viðar frá Skör
  • Örmerki: 352206000096660
  • Litur: 2520 Brúnn/milli- stjörnótt
  • Ræktandi: Karl Áki Sigurðsson
  • Eigandi: Flemming Fast, Gitte Fast Lambertsen
  • F.: IS2006158620 Hrannar frá Flugumýri II
  • Ff.: IS1995165864 Kraftur frá Bringu
  • Fm.: IS1992258600 Hending frá Flugumýri
  • M.: IS2003287015 Vár frá Auðsholtshjáleigu
  • Mf.: IS1992158707 Spuni frá Miðsitju
  • Mm.: IS1997287054 Vordís frá Auðsholtshjáleigu
  • Mál (cm): 146 – 135 – 141 – 64 – 145 – 39 – 46 – 43 – 6,7 – 30,5 – 19,0
  • Hófa mál: V.fr.: 8,9 – V.a.: 7,8
  • Sköpulag: 8,5 – 8,5 – 9,5 – 9,5 – 8,5 – 9,0 – 8,5 – 8,5 = 8,89
  • Hæfileikar: 9,0 – 9,5 – 9,0 – 8,5 – 8,5 – 9,5 – 9,0 – 9,5 = 9,12
  • Hægt tölt: 8,5
  • Aðaleinkunn: 9,04
  • Hæfileikar án skeiðs: 9,14
  • Aðaleinkunn án skeiðs: 9,05
  • Sýnandi: Helga Una Björnsdóttir


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×