Innlent

Fylgi VG ekki verið minna síðan 2013

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fylgi VG hefur ekki mælst minna síðan fyrir alþingiskosningarnar árið 2013. 
Fylgi VG hefur ekki mælst minna síðan fyrir alþingiskosningarnar árið 2013.  Vísir/Vilhelm

Fylgi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hefur ekki verið minna síðan fyrir alþingiskosningarnar árið 2013. Ný könnun Þjóðarpúls Gallup sýnir að stuðningur við ríkisstjórnina heldur áfram að minnka.

Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins. Þar segir að Vinstri græn hafi tapað meira en þriðjungi fylgis síns frá síðustu kosningum, sem fóru fram í lok september 2021. Fylgi VG breyttist mest milli kannana, Flokkur fólksins tapar einnig fylgi en fylgi annarra stendur í stað frá síðustu könnun. 

Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærstur, með 20,1 prósent en flokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í kosningunum. Þá bætir Framsókn við sig fylgi frá síðustu könnun, eða tveimur prósentustigum, og mælist nú með 17,5 prósenta fylgi sem er svipað og í kosningunum í haust.

Þá mælast Píratar með tæp 14,7 prósent, Samfylking með 14,1 prósent og Viðreisn með 9,5 prósent. Samkvæmt frétt RÚV segjast aðeins 8,1 prósent að þau myndu kjósa VG ef blásið yrði til alþingiskosninga nú, sem er 4,5 prósentum minna en í alþingiskosningunum í haust. 

Þá segist 6,4 prósent myndu kjósa Flokk fólksins, en voru tæplega 8 prósent í síðustu könnun. Sósíalistaflokkurinn mælist með 5 prósenta fylgi og Miðflokkurinn með 4,3 prósenta fylgi. Rúmlega 7 prósent taka ekki afstöðu og 8 prósent segja að þau myndu skila auðu eða ekki kjósa. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú rúm 44 prósent og lækkar stuðningurinn við þrjú prósent frá því í síðasta mánuði. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×