Innlent

Verka­lýðs­foringjar ekki hrifnir af ó­raun­hæfum hug­myndum Simma

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson (t.v.), formaður VR, Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS, telja að hugmyndir Simma Vill um jafnaðarkaup komist seint inn í kjarasamninga launafólks.
Ragnar Þór Ingólfsson (t.v.), formaður VR, Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS, telja að hugmyndir Simma Vill um jafnaðarkaup komist seint inn í kjarasamninga launafólks. Vísir

Forystumenn verkalýðshreyfingarinnar telja hugmyndir athafnamannsins Sigmars Vilhjálmssonar um jafnaðarkaup ekki vera raunhæfar. Langt sé í það að fólk samþykki slíkar breytingar. 

Í grein sem Sigmar birti á Vísi í gær stingur hann upp á því að afnema dag-, kvöld-, og helgarvinnutaxta og taka frekar upp grunntaxta. Honum þyki ósanngjarnt að mismuna fólki út frá því hvaða tíma dags það vinnur.

Með breytingunni vilji hann jafna stöðu launamanna innan fyrirtækja og sporna gegn verðhækkunum á vörum og þjónustu fyrir viðskiptavini. Sigmar er í forsvari fyrir Atvinnufjelagið sem eru hagsmunasamtök fyrir smærri og meðalstór fyrirtæki.

Foringjar innan verkalýðshreyfingarinnar telja hugmynd Simma ekki góða og telja litlar líkur á að þessi breyting nái einhvern tímann í gegn.

„Það er náttúru­lega á­stæða fyrir því að fólk er að fá hærri greiðslur á ó­þægi­legum vinnu­tímum, það er bæði til þess að fólk fáist til að starfa á þessum ó­þægi­legu vinnu­tímum og eins til þess að bæta upp fyrir það að vera að vinna á ó­hefð­bundnum vinnu­tímum. Þetta hefur verið stefið í kjara­samningum, bæði um yfir­vinnu, eftir­vinnu og vakta­á­lögum og svo fram­vegis,“ segir Drífa Snæ­dal, for­seti ASÍ, í sam­tali við frétta­stofu.

Fráleit hugmynd

Kollegar hennar, þeir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS, matvæla- og veitingafélags Íslands, taka undir orð Drífu og segja að markmiðið hjá Simma sé að lækka launakostnað, þrátt fyrir að hann haldi öðru fram til að byrja með.

„Það er alveg ljóst að allar hugmyndir um það að fólk geti unnið dagvinnuna hvenær sem er sólarhringsins er ekki bara algjörlega fráleit hugmynd heldur líka mikil afturför í réttindabaráttu vinnandi fólks. Það gefur augaleið. Fólk var að vinna hér myrkranna milli áður fyrr á sama tímakaupi, þess vegna var yfirvinnunni komið á,“ segir Ragnar Þór.

Ekki á stefnuskránni

Óskar segir að hugmyndin vinni þvert gegn því sem verkalýðshreyfingarnar vinna að.

„Ég held að verkalýðshreyfingin hafi ekki í heild sinni leitt hugann að hugmyndinni og hún hefur ekki verið á stefnuskránni hjá okkur og þetta hugnast okkur ekki.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×