Fótbolti

Skoskur úr­vals­deildar­dómari kemur út úr skápnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Craig Napier, dómari og læknir.
Craig Napier, dómari og læknir. BBC

Knattspyrnudómarinn Craig Napier hefur opinberað að hann sé samkynhneigður. Napier hrósaði hinum unga Jake Daniels, leikmanni Blackpool, fyrir að taka skrefið og koma út úr skápnum.

Napier er 32 ára gamall og starfar sem læknir ásamt því að vera knattspyrnudómari í hæsta gæðaflokki. Í myndbandi sem var birt á Twitter-síðu skoska knattspyrnusambandsins kemur Napier fram og opinberar að hann sé samkynhneigður. 

Í kjölfarið ákvað Lloyd Wilson, neðri deildardómari í Skotlandi, einnig að koma út úr skápnum.

„Við þurfum að breyta landslaginu svo fólk geti verið það sjálft og verið hamingjusamt,“ segir Napier meðal annars og á þar við um landslag fótboltans á Bretlandseyjum sem og víðar.

„Ég man eftir að lesa viðtalið þegar Tom Daley kom út úr skápnum og fannst mjög hvetjandi. Þó ekki nægilega mikið til að koma sjálfur út úr skápnum þar sem ég taldi fótbolta vera ólíkan dýfingum. Það er enn þessi veggur í fótboltanum,“ sagði Napier.

Daley keppir í dýfingum fyrir Bretland og hefur unnið til ótal verðlauna. Það er langt síðan Daley sagði alþjóð að hann væri samkynhneigður en það var ekki fyrr en táningurinn Daniels steig fram á sjónvarsviðið sem dómaranum fannst kominn tími til að stíga sama skref.

Napier hefur aldrei falið kynhneigð sína á öðrum sviðum lífsins en hann starfar sem læknir ásamt því að dæma fótboltaleiki.

„Fótbolti er öðruvísi og þess vegna tel ég að það sé mikilvægt að taka umræðuna, við þurfum að breyta þessari menningu sem er til staðar. Þangað til við tökum umræðuna og fáum fyrirmyndir út á völl þá getum við ekki afmáð fordómana né hjálpað fólki að komast yfir þennan ótta sem fylgir því að koma út úr skápnum,“ sagði Napier að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×