Fótbolti

Úkraína er einum leik frá þátttökurétt á sínu öðru heimsmeistaramóti

Atli Arason skrifar
Stuðningsmenn Úkraínu fagna sigrinum á Hampden Park.
Stuðningsmenn Úkraínu fagna sigrinum á Hampden Park. Getty Images

Í miðjum stormi gátu Úkraínumenn leyft sér að fagna í kvöld eftir 1-3 útisigur á Skotum á Hampden Park í Glasgow í undanúrslitum umspils um laust sæti á HM í Katar.

Úkraína hefur aðeins einu sinni áður spilað á HM þegar þeir tóku þátt á HM 2006 á Ítalíu. Gestirnir gátu byrjað að leyfa sér að dreyma þegar Andriy Yarmolenko kom þeim yfir á 33. mínútu eftir langan bolta frá Ruslan Malinovskyi.

Úkraína tvöfaldaði forystu sína í upphafi síðari hálfleiks þegar Roman Yaremchuk skallaði knöttinn í netið eftir fyrirgjöf Oleksandr Karavaev frá hægri.

Callum McGregor minnkaði muninn fyrir Skota á 79. mínútu eftir gjöf frá Georgi Bushchan, markvörð Úkraínu, sem missti auðvelt skot McGregor í gegnum sig.

Artem Dovbyk gulltryggði 1-3 sigur Úkraínu í uppbótatíma síðari hálfleiks. Leikmenn Skotlands voru þá nánast allir komnir í sókn til að reyna að finna jöfnunarmark. Úkraínumenn unnu boltann og brunuðu í skyndisókn þar sem Dovbyk var kominn einn í gegn við miðlínuna og kláraði færið sitt afar vel á nærstöng framhjá Craig Gordon í marki Skotlands.

Í leikslok stóðu allir viðstaddir á Hampden Park upp og klöppuðu fyrir Úkraínu og víkingaklappið var meðal annars tekið. Úkraína mætir Wales í úrslitaleik um laust sæti á HM 2022 í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×