Innlent

Grófu upp líkamsleifar til að skoða fimmtíu ára mál

Samúel Karl Ólason skrifar
Bíllinn sem maðurinn var í er sagður hafa oltið sextíu til sjötíu metra niður Óshlíð.
Bíllinn sem maðurinn var í er sagður hafa oltið sextíu til sjötíu metra niður Óshlíð. Vísir/Vilhelm

Líkamsleifar sem Lögreglan á Vestfjörðum gróf upp fyrir helgi eru af manni sem mun hafa farist í bílslysi á Óshlíðarvegi árið 1973. Hinn nítján ára gamli Kristinn Haukur Jóhannesson fannst látinn við bíl sem átti að hafa oltið niður af veginum en verið er að rannsaka hvort Kristinn hafi mögulega dáið með öðrum hætti.

Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins en þar segir að auk Kristins hafi maður og kona verið í bílnum en þau hafi sloppið með lítil meiðsli. Kristinn var sagður hafa kastast út úr bílnum og lent undir honum.

Kristinn og konan voru á leið til Bolungarvíkur eftir dansleik í Hnífsdal en samkvæmt frétt úr Morgunblaðinu frá þessum tíma var klukkan á milli fimm og sex að morgni.

Í frétt RÚV segir að fjölskylda Kristins hafi haft efasemdir um rannsókn málsins. Þeim hafi þótt bíllinn of heillegur með tilliti til þess að hann hafi átt að hafa oltið um sjötíu metra niður grýtta hlíðina. Hún hafi því farið fram á að málið yrði rannsakað að nýju.

Í frétt dagblaðsins Vísis frá 26. september 1973 segir að ökumaður bílsins hafi verið leigubílstjóri sem hafi verið vanur að keyra Óshlíðina. Við skoðun á bílnum hafi komið í ljós að stýrið hafi farið úr sambandi en óljóst hafi verið hvort það hafi gerst fyrir slysið.

Líkamsleifarnar voru grafnar upp á Barðarströnd og eru til rannsóknar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×