Innlent

Mynduðu nýjan meiri­hluta í Fjalla­byggð

Eiður Þór Árnason skrifar
Guðrún Hauksdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Guðjón M. Ólafsson, oddviti Jafnaðarfólks og óháðra, skrifuðu undir meirihlutasamning í dag.
Guðrún Hauksdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Guðjón M. Ólafsson, oddviti Jafnaðarfólks og óháðra, skrifuðu undir meirihlutasamning í dag. Aðsend

A-listi Jafnaðarfólks og óháðra hefur myndað nýjan meirihluta í bæjarstjórn Fjallabyggðar með Sjálfstæðisflokknum. Oddvitar flokkanna skrifuðu undir meirihlutasamning í dag en Sjálfstæðisflokkurinn myndaði meirihluta með I-lista Betri Fjallabyggðar á seinasta kjörtímabili.

Nýr forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar verður S. Guðrún Hauksdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður bæjarráðs verður Guðjón M. Ólafsson, oddviti Jafnaðarfólks og óháðra. Nýr bæjarstjóri verður ráðinn með auglýsingu í gegnum ráðningarstofu.

Birta samninginn í næstu viku

Fram kemur í tilkynningu frá framboðunum að í meirihlutasamningnum sé lögð áhersla á samgöngumál, atvinnumál, búsetumál, umhverfis- og innviðamál og það að efla enn frekar þjónustu við íbúa Fjallabyggðar. Til stendur að opinbera samninginn að loknum fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar sem fram fer næsta fimmtudag.

„Viðræður hafa gengið vel enda verið hreinskiptar og opnar, og liggur nú fyrir metnaðarfullur málefnasamningur um samstarf framboðanna.“

Að sögn oddvitanna hefur sveitarfélagið Fjallabyggð haft traustan rekstur og munu framboðin leggja ríka áherslu á að svo verði áfram.

Sjálfstæðisflokkurinn missti einn fulltrúa í nýafstöðnum kosningum og náði tveimur inn en Jafnaðarfólk og óháðir nældu í þrjá fulltrúa.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×