Innlent

Stór skjálfti í Bárðarbungu

Árni Sæberg skrifar
Bárðarbunga í fjarska.
Bárðarbunga í fjarska. Vilhelm Gunnarsson

Rétt upp úr klukkan átta í morgun varð jarðskjálfti í sunnanverðri Bárðarbungu sem mældist 4.4 að stærð.

Nokkrir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið en enginn órói hefur mælst. Skjálftar sem þessir þekkjast vel í Bárðarbungu en tveir aðrir hafa mælist yfir 4 að stærð á þessu ári, að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Stærsti skjálftinn það sem af er ári mældist af stærðinni 4,75. Hann mældist norðan öskjunnar þann 22. febrúar síðastliðinn. Þá varð annað af stærðinni 4,1 þann 25. mars suðvestanmegin í öskjunni.

Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir svæðið norðan Vatnajökuls vera það svæði landsins þar sem flestir stórir jarðskjálftar verða, ef frá er talinn Reykjanesskaginn, í samtali við Vísi.

Hún segir að skjálftavirkni við Bárðarbungu skýrist af því að kvikuhólf undir eldstöðinni sé að fyllast á ný eftir að hún tæmdist árið 2014 þegar eldgos varð í Holuhrauni. 

Lovísa segir ekkert benda til þess að von sé á eldgosi í Bárðarbungu, sem er önnur stærsta eldstöð landsins.

Fréttin verður uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.