Fótbolti

Tilbúinn að fórna öllu fyrir sigur, jafnvel eiginkonunni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Valverde þráir Meistaradeildartitilinn.
Valverde þráir Meistaradeildartitilinn. Diego Souto/Quality Sport Images/Getty Images

Federico Valverde, miðjumaður Real Madrid, er afar spenntur fyrir komandi úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu gegn Liverpool. Hann segist reiðubúinn að fórna miklu fyrir Meistaradeildartitil.

Real Madrid hefur unnið Meistaradeildina oftast allra, 13 sinnum, og eygir liðið sinn 14. titil er það mætir Liverpool í úrslitum í París klukkan 19:00 annað kvöld. Fjögur ár eru frá síðasta titli, sem vannst 2018 eftir sigur á Liverpool í úrslitum.

Valverde var þá að vinna sér inn sæti í liði Real, sem var að vinna sinn fjórða Meistaradeildartitil á fimm árum, en sá úrúgvæski leitar enn sinnar fyrstu gullmedalíu í keppninni.

Hann grínaðist með það í viðtali fyrir leik að hann væri jafnvel tilbúinn að fórna hjónabandi sínu til að vinna keppnina.

„Þetta er einstakur bikar fyrir hvaða leikmann sem er í heiminum. Ég er tilbúinn að fórna mörgum hlutum [til að lyfta honum]. Undantekningin er sonur minn... en þó jafnvel eiginkonunni“. hefur spænski miðillinn AS eftir Valverde.

Real Madrid og Liverpool eigast við klukkan 19:00 annað kvöld og verður leikurinn sýndur beint í lokaðri dagskrá á Viaplay. 

Eftir leik verður Guðmundur Benediktsson með góða gesti í Meistaradeildarmörkunum á Stöð 2 Sport 2 og fer yfir allt það helsta úr leiknum. Sú útsending hefst klukkan 22:00.


Tengdar fréttir

Metin sem gætu fallið á morgun

Það ræðst annað kvöld hvort Liverpool eða Real Madrid landar Evrópumeistaratitlinum í fótbolta karla. Met gætu fallið á Stade de France leikvanginum í París þar sem úrslitaleikurinn fer fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×