Innlent

Meiri­hluti loksins myndaður á Akur­eyri

Árni Sæberg skrifar
Loksins hefur verið komist að niðurstöðu um hverjir muni stjórna í Ráðhúsinu á Akureyri næstu fjögur árin.
Loksins hefur verið komist að niðurstöðu um hverjir muni stjórna í Ráðhúsinu á Akureyri næstu fjögur árin. Vísir/Vilhelm

Oddvitar Bæjarlista Akureyrar, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks á Akureyri hittust í bústað í gær og mynduðu meirihluta bæjarstjórnar.

Oddvitarnir hittust um hádegi í gær og um klukkan tíu um kvöldið var fullmyndaður meirihluti orðinn til, þetta staðfestir Heimir Örn Árnason, oddviti Sjálfstæðisflokks, í samtali við Vísi.

Hann segir að stefnt sé að því að Ásthildur Sturludóttir verði áfram bæjarstjóri Akureyrar, en hún var fyrst ráðin bæjarstjóri árið 2018. Þá segir hann að málefnasamningur sé langt á veg kominn og verði kynntur opinberlega þann 1. júní

Bæjarlisti Akureyrar fékk þrjá bæjarfulltrú kjörna, Sjálfstæðisflokkur tvo og Miðflokkur einn. Því mynda flokkarnir minnsta mögulega meirihluta í ellefu fulltrúa bæjarstjórn Akureyrar.

Nokkuð brösulega hefur gengið að mynda meirihluta á Akureyri en tvennar formlegar viðræður hafa verið hafnar en siglt í strand á endanum.

Fyrst voru það oddvitar Bæjarlistans, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem ræddu saman en upp úr þeim viðræðum slitnaði og í kjölfarið sökuðu Bæjarlistamenn Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn um að hafa virt heiðursmannasamkomulag að vettugi með því að ræða við fulltrúa annarra flokka.

Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Miðflokkur hófu þá viðræður, fyndnu fréttafólki til mikillar gleði sökum listabókstafa flokkanna.

Oddviti Samfylkingarinnar sleit þeim viðræðum í gær vegna ágreinings um málefni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.