Fótbolti

Jafnt í Íslendingaslagnum í Noregi

Atli Arason skrifar
Alfons Sampsted, leikmaður FK Bodø/Glimt.
Alfons Sampsted, leikmaður FK Bodø/Glimt. Getty Images

Það var nóg af mínútum hjá íslenskum konum og körlum í norska fótboltanum í dag. Það voru skoruð mörk í öllum leikjum en jafntefli var niðurstaðan í uppgjöri Íslendingaliðanna Bodø/Glimt og Strømsgodset.

Alfons Sampsted, leikmaður Bodø/Glimt, og Ari Leifsson, leikmaður Strømsgodset, voru báðir í byrjunarliði sinna liða og léku allan leikinn í 2-2 jafntefli. Báðir eru þeir í landsliðshópnum sem tilkynntur var í dag ásamt Patriki Gunnarssyni.

Patrik og Samúel Kári Friðjónsson voru saman í byrjunarliði Viking sem gerði 1-1 jafntefli við Ham-Kam. Samúel var skipt af leikvelli á 87. mínútu en Patrik lék allan leikinn í marki Viking.

Með jafnteflinu fer Viking á topp efstu deildar með 21 stig en liðið hefur leikið tveimur leikjum meira en Lillestørm sem er í öðru sæti með 20 stig.

Strømsgodset er í 4. sæti með 14 stig og Bodø/Glimt í því 6. með 13 stig.

Það var einnig leikið hjá stelpunum efstu deild í Noregi. Selma Sól Magnúsdóttir og stöllur í Rosenborg unnu 1-0 sigur á LSK. Selma var í byrjunarliðinu og spilaði fyrstu 69 mínúturnar áður en henni var skipt útaf.

Svava Rós Guðmundsdóttir byrjaði inn á hjá Brann en spilaði einungis 26 mínútur í 2-0 sigri á Roa.

Ingibjörg Sigurðardóttir, leikmaður Vålerenga spilaði allar 90 mínúturnar í 1-4 útisigri liðsins á Stabæk.

Íslendingaliðin raða sér í efstu þrjú sæti deildarinnar. Brann er á toppnum með 31 stig, Vålerenga er í öðru sæti með 28 stig en Rosenborg er í því þriðja með 25 stig. Vålerenga á þó leik til góða á hin tvö liðin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×