Fótbolti

Urðu að spila landsleik og þurftu að velja á milli San Marínó og Kasakstan

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson í leik með íslenska landsliðinu á móti Þýskalandi.
Jón Dagur Þorsteinsson í leik með íslenska landsliðinu á móti Þýskalandi. Vísir/Hulda Margrét

KSÍ bar skylda til að finna leik fyrir karlalandsliðið í fótbolta í júní, í stað leiks sem átti að vera gegn Rússlandi, og er það aðalástæðan fyrir því að liðið mætir lélegasta landsliði heims, San Marínó, 9. júní.

Íslenska landsliðið hefur í nógu að snúast í júní þrátt fyrir að hætt hafi verið við leik gegn Rússlandi í Þjóðadeildinni 10. júní, eftir að UEFA rak Rússa úr keppninni vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Ísland leikur gegn Ísrael ytra 2. júní, heima gegn Albaníu 6. júní og svo heima gegn Ísrael 13. júní, í Þjóðadeildinni. Því vekur kannski furðu að bætt hafi verið við leik á útivelli gegn San Marínó 9. júní, svo að leikirnir séu orðnir fjórir á ellefu dögum og ferðalögin enn meiri.

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari segir sambandið skuldbundið til að spila ákveðinn fjölda leikja á ákveðnum tímabilum, vegna sjónvarpsréttarsamninga UEFA, og því hafi þurft að finna leik í stað leiksins við Rússa. Einu þjóðirnar sem hafi verið á lausu innan knattspyrnusambands Evrópu hafi verið San Marínó og Kasakstan:

„Við reyndum fyrst að fá heimaleik og töluðum við Asíuþjóðir og fleiri en það var enginn sem gat komið á akkúrat þessum dögum. Því var ákvörðunin að við færum til San Marínó þá frekar en Kasakstan sem er aðeins lengra ferðalag,“ sagði Arnar á blaðamannafundi í dag.

Mögulega munu þó flestir af helstu leikmönnum íslenska liðsins bíða heima á Íslandi á milli leikjanna við Albaníu og Ísrael:

„Fyrsta hugmyndin hjá okkur var að skilja töluvert marga leikmenn eftir á Íslandi fyrir leikinn við San Marínó, og það er enn möguleiki. Þá kemur samstarfið á milli U19-, U21 og A karla inn í þetta,“ segir Arnar en mögulega munu leikmenn úr yngri landsliðum fylla í hópinn fyrir leikinn við San Marínó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×