Fótbolti

Sagður á­reita fót­bolta­konur kyn­ferðis­lega en ekki refsað af FIFA

Sindri Sverrisson skrifar
Siðanefnd FIFA rannsakaði mál Diego Guacci en mun ekki refsa honum.
Siðanefnd FIFA rannsakaði mál Diego Guacci en mun ekki refsa honum. Getty/David Ramos

Fifpro, alþjóða leikmannasamtökin, hafa gagnrýnt þá niðurstöðu siðanefndar FIFA að sleppa þjálfaranum Diego Guacci við refsingu. Guacci, sem starfað hefur með unglingsstelpum, var meðal annars sakaður um að senda leikmanni óumbeðið klámefni og biðja um myndir í staðinn.

Fimm kvenkyns leikmenn færðu FIFA, alþjóða knattspyrnusambandinu, gögn til að sýna fram á áreitni af hendi Guacci yfir nokkurra ára tímabil. Hann er tæknilegur ráðgjafi hjá U15- og U17-landsliðum stelpna í Argentínu og með próf frá FIFA sem sérstakur leiðbeinandi í kvennafótbolta og sem tæknilegur ráðgjafi.

Sagður í skýrslu hafa sent óumbeðið klámefni á leikmann

Í rannsóknarskýrslu siðanefndar FIFA var niðurstaðan sú að Guacci hefði brotið nokkrar af siðareglum sambandsins. Þar á meðal hefði hann „brugðist í því að vernda, virða og tryggja heilindi og persónulega reisn annarra“, „viðhaft móðgandi látbragð og orðalag til þess að móðga eða útskúfa leikmenn,“ tekið þátt í andlegri misnotkun og kynferðislega áreitt leikmann með því að senda viðkomandi óumbeðið klámefni og óskað eftir nektarmyndum af henni.

Engu að síður var það niðurstaða „dómshluta“ siðanefndarinnar að ekki væru næg sönnunargögn til staðar til að dæma Guacci sem hefur staðfastlega neitað sök.

Í yfirlýsingu Fifpro segir: „Leikmennirnir voru óhemju hugrakkir að stíga upp á móti hegðun þjálfarans og leggja sitt að mörkum við að gera fótboltann öruggari og umhverfið fyrir kollega sína betra. Niðurstaða siðanefndar FIFA vekur upp spurningar um hversu mikið af sönnunargögnum þurfi til að mál hafi afleiðingar og þetta veldur því að leikmenn reyna síður að stöðva þá sem beita áreitni og misnotkun.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.